Meyjan: Febrúarmánuður gefur þér eldspúandi kraft

Elsku Meyjan mín,

þú ert eitthvað að halda þér í skefjum og að passa of mikið upp á að allt sé rétt og í lagi. Undirstöðurnar þínar eru góðar og þú ert vel metin, en það er ekki langt síðan þú braust sjálfa þig niður eða einhver atburður bugaði þig andlega og stoppaði þig í að blómstra sem þú sannarlega hefur kraft og atorku til að gera, en það getur læðst að þér gamall kvíði sem á ekkert erindi til þín í dag.

Febrúarmánuður gefur þér eldspúandi kraft til að sinna sjálfri þér og raða öllu fullkomlega rétt saman og þú færð meiri ábyrgð, þú munt elska það og þú færð boð um ný spennandi verkefni eða álíka.

Þú skilur á þessum tíma að þú getur sjálf gert miklu meira, því þegar þú sérð að þú þarft ekki hjálp eða aðstoð þá tvöfaldast afl þitt og þú ert huguð, svo nýttu þér hugrekkið sem er kraftur sem svífur yfir þér næstu mánuði.

Þú ert að skapa nýja hluti, en þér finnst kannski að það gangi hægt en það svo mikill kraftur og uppbygging í því sem þú ert að gera, mundu elskan mín að góðir hlutir gerast hægt eða hratt og örugglega, allt eftir hversu miklu hugrekki þú stráir yfir þennan kafla.

Þetta verður tímabilið sem sýnir hvaða mann þú hefur að geyma og færir þér tækifæri til að laga, breyta eða að byggja upp fjárhaginn þinn og allar árstíðir eru í raun þinn tími því þú finnur alltaf réttan flöt, þess vegna væri það hálfömurlegt líf að hafa enga Meyju með sér í liði!

Eftir því sem mánuðirnir líða sérðu hvaða merkingu þessi tími hefur, gefðu ástinni og lífinu meiri séns því að í kringum þig eru töfrar sem færa þér máttina og dýrðina til að skapa, breyta og bæta hvern einasta dag.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is