Fiskarnir: Ástin mun blómstra í öllum litum alheimsins

Elsku Fiskurinn minn,

þótt þér finnist þú sigla kannski ekki alveg í hlýja Golfstraumnum núna, þá er þetta bara rétt um stundarsakir að þér finnist þú þurfa að synda upp fossa og ískaldar ár.

En í þessu sérðu líka hvers þú ert megnugur og hefur miklu meiri kraft en þér hefur nokkurntímann dottið í hug þú byggir yfir. Hugmyndir þínar um að laga, redda og bjarga gætu fyllt heila bók. Svo þú tekur á rás eins og flugfiskur og hver stoppar hann? Þú eignast aðdáendur allt í kringum þig og átt eftir að elska það og gefðu ástinni rými og leyfi til að anda því þá blómstrar hún öllum litum alheimsins.

Þetta er svo góður tími ef þú hefur einhvern áhuga á dýrum þá er tíminn til þess að finna ný tengsl, fá sér hund, kött eða gullfisk, rækta blóm eða hvað sem mögulegt er á þessum tíma sem vorið býður okkur upp á. Þú þarft nefnilega ekkert til að sljóvga hugann eða hjartað, nema einfaldar aðferðir eins og við höfum kunnað frá því mannkyn hófst.

Þú hefur fundið fyrir tilvist einhverrar sorgar og núna vinnur þú svo vel úr því öllu saman. Ef þú ert leiðandi og áberandi Fiskur þá margfaldarðu það upp og færð athygli á hárfínan hátt. Þú færð virðingu og staðfestingu á hæfileikum þínum, því þú ert svo sannarlega búinn að vinna hörðum höndum að svo mörgu.

Þú finnur þá peninga sem þú þarft til að bjarga, redda og bæta og það eru alls staðar leiðir og sérstaklega í kringum þig; þú tilfinninganæmi, góði og yndislegi Fiskurinn minn, hamingjan er að banka, svo stattu upp!

Kossar & knús,

Sigga Kling

mbl.is