Ljónið: Þú ert eitt af sjö undrum alheimsins

Elsku Ljónið mitt,

í augnablikinu er eins og þú hafir lagst niður, sért að virða fyrir þér lífið og tilveruna og skoða hvaða afstöðu þú ætlar að taka. Það er alveg 100%að  þú mátt ekki fresta því sem þú þarft að gera svo þú skalt drífa þig áfram núna og endurskapa þig í þeirri mynd sem þú vilt vera í.

Þótt þú viljir vera svo einstakt ertu bara stór hluti af afskaplega stórri heild sem er kölluð mannkynið. Þú hefur mikla þörf fyrir að vera í skipulagi og þolir ekki rusl og drasl. Að sjálfsögðu finnurðu leið til að endurskipuleggja umhverfi þitt og sjálft þig.

Það er svo mikilvægt, elskan mín, að þú sýnir þeim virðingu sem þú elskar og þeim sem elska þig. Ekki brjóta niður einn einasta part af sjálfstrausti þeirra sem vilja hanga með þér því þá geturðu sjálfur lent illa í hlutunum.

Oft er betra að þegja en segja, svo talaðu ekki um aðra nema þú viljir segja eitthvað gott og vendu þig á það, elskan mín. Mörg ykkar hafa reyndar fyrir löngu séð að þetta er eina leiðin því þegar þú elskar einhvern og gefur honum hjarta þitt verður þú að eilífu trútt og sátt.

Þótt ýmsir atburðir eða verkefni sem þú bjóst við að fara í munu frestast eða breytast, þá verður það þér í hag. Þú þarft bara að sýna ögn af þolinmæði og sjá og skoða að það eru margir möguleikar í boði.

Ekkert getur haldið þér niðri eða stoppað þig nema þú sjálft. Svo hugsaðu um og einbeittu þér meira að því að byggja upp gott samband við sjálft þig því þú getur skilið við alla í lífinu, fjölskylduna, föðurlandið og vinina, en þú vaknar alltaf og sofnar með sjálfu þér.

Þú ert eitt af sjö undrum alheimsins, þegar aðrir nálgast og sjá sjálfstraustið og einlægnina sem þú hefur byggt upp er ekkert sem getur skyggt á þig.

Kossar & knús, Sigga Kling

mbl.is