Sporðdrekinn: Núna er akkúrat tíminn til að framkvæma

Elsku Sporðdrekinn minn,

þú ert að fara inn í svo merkilegt tímabil þar sem þú þarft að taka skýrar ákvarðanir, en skýrar ákvarðanir eru ekki á gráum svæðum og alls ekkert kannski eða seinna. Svo það er bara já eða nei og þetta mun losa þig undan þeirri krísu hugarins sem hefur verið að pína þig. Þú hefur það efni í þér að geta verið svo afdráttarlaus og skýr og ert búinn að láta svo marga vita hvað þig langar til að gera, en núna er akkúrat tíminn til að framkvæma.

Þú ert að skipta um ham og tekur ákvarðanir á færibandi og hugsar hvað gerðist eiginlega og hvaðan fékk ég þennan kraft til að standa með mér? Ekkert vera að spá í það því hann er bara þarna þessi dásamlegi kraftur sem losar þig úr viðjum þess að standa ekki með þér.

Þú ert á sterku tímabili til að fá útrás fyrir allar mögulegar tilfinningar og fólk á það til að geta orðið hálfhrætt við þig, því pínulítil hefnigirni getur fæðst, svo í guðanna bænum fólk, ergið ekki Sporðdrekann minn. Í ástríðum þá er Venus að leika við þig og þeir sem eru á lausu eru með háa tíðni til að tengja sig við hitt kynið og leyfa ástríðunum að flæða.

Þú ert að vaxa mikið, verða sterkari og sterkari. Vitund þín verður næmari og næmari og þú upplifir að hafa fangið fullt af ást og í þeirri vegferð færðu gjafir sem gleðja huga þinn og hjarta. Mundu bara að mátturinn býr í þessum mánuði og með því sem þú sérð og kemur til með að halda í höndina á þér á næstunni, þannig byggirðu upp alla framtíð þína.

Þér fylgir undarleg lukka, svo gáðu hvort þú hafir ekki fengið vinning eða eitthvað sem þú jafnvel tekur ekki eftir, kannski eru þetta gjafirnar sem ég var að segja frá, en þetta mun veita þér spennu, gleði og góða tíma.

Kossar & knús,

Sigga Kling

mbl.is