Bogmaðurinn: Þú verður að hlaða betteríin

Elsku Bogmaðurinn minn,

þú ert að afla þér svo mikils hugrekkis og fá svo mikinn kjark að það er eins og þú sért að fá vængi. Þú ferð á miklum hraða frá A til B eða hvert sem þú ætlar þér.  Þetta er tími sem þú verður í essinu þínu en þú þarft að vita að til þess að halda áfram á þessari braut þarftu að sofa nóg.

Þú átt eftir að taka þig svo verulega á líkamlega að þú munt finna hvað þú ert stoltur og ánægður með þig. Þú færð mikið af hugmyndum í þessari háu tíðni sem verður hjá þér, en það er samt gott að fá lánaða dómgreind og spyrja aðra sem þú heldur að viti betur, spyrja um leyfi, eða spyrja bara.

Þú sérð ekki hvað er að fara að gerast, einfaldlega vegna  þess að það er ekki sýnilegt. Þetta tengir líka þá sem eru að huga að ástinni, þú gætir verið efins um að þú sért á réttri leið.

Það skiptir samt engu máli því Venus er svo sterkur inni í orkunni þinni. Hann færir þér heppni í ástamálunum. Skyndikynni henta þér ekki og gefa þér ekki neitt og þú steingleymir þeim eins og lélegu kaffiboði.

Ég ætla að draga spil úr töfrabunkanum mínum og á því er persóna sem táknar þig þar sem þú situr fyrir aftan hrókinn sem er taflmaður í skák. Hrókurinn fer á leifturhraða um allt borðið og er þannig einn af sterkustu taflmönnunum.

Hrókurinn er líka jafn sterkur þó svo hann hreyfi sig ekki. Þetta spil táknar að þú þarft að gefa þér næði og vera á þeim stað sem þér líður vel til þess að hlaða batteríin fyrir spennuna sem er framundan. Hér er líka talan níu sem tengir allan Alheiminn svo þú átt eftir að geta aðlagað þig að öllu og öllum.

Kiss og knús, Sigga Kling

Frægir í Bogmanninum: 

Ingvar E. Sigurðsson leikari, 22. nóvember

Björgvin Franz Gíslason leikari, 9. desember

Steindi, grínisti, 9. desember

Bryndís Ásmundsdóttir, leik- og söngkona, 11. desember

Logi Bergmann Eiðsson, útvarpsstjarna á K100, 2. desember

Jóhannes Ásbjörnsson, á Fabrikkunni, 28. nóvember

mbl.is