Bogmaðurinn: Þú ert leikstjórinn

Bogmaðurinn.
Bogmaðurinn.

BOGMAÐURINN | 23. NÓVEMBER 20. DESEMBER

Elsku Bogmaðurinn minn, þú hefur svo mikinn sjarma og býrð til svo fullkomin augnablik. Svo þú verður að velja mótleikarana þína af alúð og samviskusemi. Annars verður allt vitlaust og þú dregur þig niður á það plan sem mótleikarar þínir eru á.

Þú ert leikstjórinn svo þú getur skipt út og ráðið aðra. Þetta táknar svo margt annað í lífi þínu, ekki bara maka eða kærasta heldur svo miklu meira.

Það sagði mér þekktur útvarpsmaður fyrir stuttu að hans hlutverk í lífinu væri að láta öðrum líða vel. Og þegar þú ferð í þá tíðni að hlutverk þitt sé svolítið þannig, að láta öðrum líða vel, þarftu alls ekkert að hafa fyrir því.

Það er svo margt núna á næstu mánuðum sem tengist viðskiptum og einhvers konar skemmtileg leikflétta sem mun heppnast svo vel. Og það sem þér fannst einu sinni svo erfitt og ókleift er þér núna jafn auðvelt og að draga andann.

Ef þú ert á lausu skaltu vanda valið vel og reikna út einstaklinginn, mínus og plús einhvern sem þú getur komið með heim til mömmu og þú ert stoltur af. Þá eru opin tækifæri ástarinnar sem gefa einlægni og ró. Svo þegar þú leggur höfuð að bringu viðkomandi og færð þá tilfinningu að þér líði vel og þú treystir þeirri persónu er það tákn um ástina.

Ég dreg eitt spil fyrir þig og það er spil ástarinnar. Þar er mynd af höndum sem halda á kerti með svo fallegan loga. Svo eru nokkur kerti í kringum þig eins og fljótandi á vatni. Þetta færir þér merki um ást og að þú gefur svo fallegar og góðar minningar.

Knús og kossar, 

Sigga Kling

Frægir í Bogmanninum:

Ingvar E. Sigurðsson, leikari, 22. nóvember

Björgvin Franz Gíslason, leikari, 9. desember

Edda Heiðrún Backman, leikkona, 27. nóvember

Steindi Jr., grínisti, 9. desember

Bryndís Ásmundsdóttir, leik- og söngkona, 11. desember

Logi Bergmann Eiðsson, fjölmiðlamaður, 2. desember

Jói á Fabrikkunni, veitingamaður, 28. nóvember

mbl.is