Ljónið: Í hönd við hamingjuna

Það er ýmislegt framundan hjá Ljóninu í júlí.
Það er ýmislegt framundan hjá Ljóninu í júlí. mbl.is

LJÓNIÐ | 21. JÚLÍ 21. ÁGÚST

Elsku Ljónið mitt, himingeimurinn og veröldin öll er á hraðferð til að leysa úr öllu sem þú þarft að láta gerast. Þér finnst alltaf að þú þurfir að bjarga og redda öllu, svo að hugsanirnar eru á sömu fleygiferð og alheimurinn. Eftir því sem þér finnst þú geta tengt þig meira frið og ró geturðu sleppt því að vera í spennugírnum. Þannig sérðu að þú þarft ekki alltaf að vera hoppandi glaður til að sjá að hamingjan heldur í höndina á þér.

Það eru vissir erfiðleikar tengdir vinnu eða lífsafkomu, en þú verður eitilharður í því að finna annað úrræði sem lætur þig lenda á réttum stað. Þarna þarftu að vera ákveðinn, þýðir ekki að vera lint eða latt Ljón í þessum kringumstæðum. Og þegar þú finnur að þú verður það, þá kemur krafturinn yfir þig; Ég get, ætla og skal, GÆS. Það eru líka sterk skilaboð til þín um að Ljón búa alls ekki í helli, því þar myndu þau deyja úr leiðindum. Þau eru alltaf í hópum og þú skalt tengja þig eins mörgum hópum og þú mögulega getur. Þú ert að fá tækifæri til að gera líf þitt litríkara og lofsverðara. Ég dreg eitt töfraspil úr bunkanum mínum og þar kemur spil sem táknar aga, skipulag og rútínu. Þetta er lykillinn að hinum mikla mætti. Þetta spil ber töluna 16 og ef þú leggur saman tölurnar 1+6 færðu töluna sjö, sem er andleg tala vellíðanar.

Ástin er í öllum hornum og þótt þú sért köttur skaltu ekki leika þér að músinni. Sönn ást er komin til að vera en sú sem skiptir engu máli og gefur ekkert nema erfiðleika er komin til að fara. Það eru mörg góð og merkileg tækifæri í kringum þig, en þú þarft að hafa frumkvæðið. Og þótt þér finnist stundum að þér líði illa er helvíti ekki staður heldur hugarástand, þetta er staðreynd svo að allt er á góðri leið hjá þér.

Kossar og knús, Sigga Kling

Frægir í Ljóninu:

Cara Delevigne fyrirsæta, 12. ágúst

Ágústa Eva Erlendsdóttir, leik- og söngkona, 28. júlí

Halldóra Geirharðsdóttir, leikkona, 12. ágúst

Birgitta Haukdal, söngkona, 28. júlí

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, 4. ágúst

Ásdís Rán fyrirsæta, 12. ágúst

Geir Ólafsson söngvari, 14. ágúst

mbl.is