Fiskurinn: Þú ert bestur í að vera á tánum

Elsku Fiskurinn minn, þið eruð í miðjunni á yndislegu sumri. Það er mikið að gera hjá ykkur, en kannski ekki eins skipulagt og þið viljið hafa það. Þú ert bestur í því að vinna á tánum og taka að þér ólík verkefni. Þú elskar fólk og þú bæði gefur manneskjum orku, en þú þrífst líka á orkunni sem þú færð tilbaka.

Þú ert í eðli þínu móðurlegur persónuleiki. Dýr, börn og gamalmenni leita til þín og líður vel hjá þér. Það er svo rosalega mikilvægt að þú starfir í kringum eða með fólki, í því finnurðu þennan stöðugleika sem hjálpar þér að láta hugmyndir þínar verða að veruleika.

Húmor þinn og skarpskyggni létta þér og öðrum lífið og opnar fyrir listamanninn í þér. Þú nærð að láta litla hluti hressa þig við á leiðinni til mikils frama og tekur eitt skref í einu. Það er fullt tungl í Vatnsberanum þann þriðja ágúst og talan þrír tengist þér svo sterkt. Á þessum tíma skaltu setjast niður og skoða vandlega hvernig þú vilt hafa hlutina. Það er brennandi heppni í kringum þessar tölur og tungl og þú skilur nákvæmlega hvert þú ætlar að fara.

Nú dreg ég tvö Steinaspil fyrir þig og þar er mynd af íslensku „quarts“-orkustöðinni sem stendur fyrir sjálfstæði, orku og dugnað. Þar eru líka skilaboð um að það verði góð viðskipti í kringum þig sem eflir allt sem er verðmætt. Þetta er hjartadrottning og hjartagosi sem eru tákn um gleði, hlátur og skemmtanir og þú þolir hvort eð er ekki að hjakka í sama farinu. En það er bara svo dásamlegt að segja þér að líf þitt verður ekki eins fastmótað eins og hjá flestum öðrum, svo „Don‘t worry be happy“.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is