Sporðdrekinn: Sérstaklega góður tími fyrir ástina

Elsku einstaki Sporðdrekinn minn, það er alveg sama hvað hefur gerst þú skalt
bara halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Þú sameinar töfrana þína og alvöruna og verður dýpri, léttari og liprari í huga þínum.

Líf þitt á næstunni er nátengt við fjölskyldu og aðra ástvini og leyfðu þér líka að láta eftir þér
áhyggjulausa rómantík. Þú kynnist að sjálfsögðu oft fólki sem þú hefur þekkt áður á öðrum tilvistartímum og kannski einhverja sem hafa valdið þér djúpri sálarkvöl. Svo vertu viss um að þú elskir og gerðu allt fyrir þann sem þú elskar.

Venus er að senda þér gríðarlegar ástríður sem þú nýtir þér kannski ekki því þú ert svolítið latur. Gefðu þér góðan tíma, njóttu augnabliksins og ekki vera hræddur þó þú stökkir út í djúpt vatn, því hugrekki fer þér vel.

Ég dreg fyrir þig tvö Steinaspil sem ég gerði á dögunum. Þú færð hjartaþrist þar sem stendur
gleðilegur tími og steinninn á spilinu er Stilbít, sem er sérstaklega góður fyrir ástina og sköpun og hann hreinsar og eykur sjálfstjáningu.

Þú færð líka spaðasjöuna sem segir að þú sért í hugarstríði, heilinn er svo oft að blekkja okkur. Þetta er andlegur og kraftmikill steinn sem heitir Jaspis og orka hans minnkar stress og eflir drauma.
Þú dregur töluna einn á síðasta spilinu sem táknar fyrsta sætið, en skoðaðu vel hvort þér finnist þú yrðir glaður að fá fyrsta sætið því þú þarft að gera það sem er gleði þín. Þannig eflirðu hamingjuna, lífið og alla þá sem eru að þroskast í kringum þig. En líf þitt er samt rétt að byrja og þú ert sjálfur mátturinn.

Kossar og knús, 

Sigga Kling 

mbl.is