Vatnsberinn: Ekki vera hræddur við ástina

Elsku Vatnsberinn minn, þú þarft að taka ákvarðanir, vera sýnilegur og láta tengslanetið hjálpa þér og láta þig flæða eins fallega og Þingvallavatn.

Þú hefur svo sterka nærveru, en eins ljúfur og yndislegur og þú ert, er fólk oft hrætt við þig. Þú átt það til að skipta skapi á vitlausum stöðum, en þeim sem þekkja þig er slétt sama því þeir vita að þú ert snöggur að fyrirgefa.

Láttu skapið ekki koma þér í vandræði, þú átt eftir að berjast fyrir þér og þínum og tryggð skiptir þig aðalmáli. Ef þú sérð að hún er ekki gagnkvæm þá klippirðu á tenginguna.

Núna er kannski rétti tíminn til að gera allt vitlaust, því það skiptir nefnilega máli að láta í sér heyra á réttum tíma en taka samt ákvörðun og vera fylginn sér.

Ekki vera hræddur við ástina, hún er einstök og þar af leiðandi aldrei eins. Svo ekki leita eftir því sem þú hafðir einu sinni eða einhverju líku því, vegna þess að engin ást er eins og við elskum út af svo mörgu. Þú hefur áhyggjur innan fjölskyldunnar eða af einhverjum nærri þér vegna ástarinnar, en ef hún gengur ekki upp, þá er hún ekki sönn ást.

Ég dreg tvö spil fyrir þig úr töfrastokknum mínum og eitt Steinaspil fyrir þig elsku Vatnsberinn minn. Steinaspilið er tígulkóngur sem segir að annaðhvort sért þú valdamikil og áhrifamikil persóna eða þú munir kynnast slíkri persónu.

Steinninn sem prýðir þetta spil er epístílít sem eykur frjósemi anda og huga, tengist barnaláni, færir fólki barnalán og hjónaband. Þú dregur líka töluna 13 sem segir að það verði mikil umbreyting á þér sjálfum, þú byrjar jafnvel að klæða þig upp, nota nýja hárgreiðslu eða byggja þig upp í nýjum litum.

Með þessu fylgir spil sem tengist þriðja auganu, svo þú finnur skýrt á þér smæstu hluti og ert svo mikið og hátt tengdur alheimsorkunni. Mig langar að lokum að skila til þín að þú ert forstjórinn yfir eigin lífi svo láttu hugsanir ekki trufla þig.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is