Vogin: Þú hefur einstakan „X-Factor“

Elsku Vogin mín, þú ert eins og jólatré og hvort sem það er mikið eða lítið skreytt þá hefurðu þennan einstaka „X-Factor“ að maður tekur eftir þér alveg sama hvað gerist.

Þú hefur þinn sterka stíl og enginn fær því breytt. Að sjálfsögðu verðurðu þreytt, búin á því og langar bara að leggjast til svefns og sofa út árið, en það er sko ekki eðli þitt í raun.

Þú gætir gert svo margt þó þú værir sofandi og þú miklar aldrei fyrir þér hvað þú hefur gert, montar þig ekki eða hreykir yfir neinu og heldur bara áfram eins og stormurinn á hálendinu.

Mikið af peningum er að flækjast inni í merkinu  þínu, peningar eru að skipta um hendur, nýir að koma og þú mótar og byggir upp drauma sem kraftur peninganna mun hjálpa þér við.

Ég dreg fyrir þig tvö Steinaspil með íslensku steinunum og þú færð hjartafimmuna þar sem fylgir tilfinningaríkt ferðalag sem eflir ást og unað.

Þú færð rauðan stein sem heitir ópall, er tákn fyrir eldmóð og hitt spilið er spaðanía sem færir þér óvænt ævintýri á næstunni þar sem er grænn jaspis og undir honum stendur að hann sé góður að nota undir fullu tungli og lauma í vasa þess sem maður elskar. Og ef þú ætlar að finna grænan jaspis, þá geturðu það.

Það verða ekki allir sáttir við ákvarðanir þínar, en það þýðir bara að þær séu öflugar. Þér líður eins og þú sért að klífa hátt fjall eða sigra fótboltaleik og ert að ná að byggja svo mikið upp af þér, þínum tilfinningum og finna svo virkilega hvað þú ert sterk.

Flestir sem eru staðsettir í þessu blessaða merki mega búast við því að næstu mánuðir muni landa stærsta laxinum og það sem svo mikilvægt er að það er bara byggt upp á sögum. En það eru svo margar og merkilegar sögur að ná athygli þinni. Ástin býr í núinu og þú getur mótað hana eins og mjúkan leir.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is