Fiskarnir: Þú hefur yfirmáta kynþokka

Elsku Fiskurinn minn,

það er fullt tungl í þínu merki í byrjun september. Það er svo magnað, að ef þú skoðar tímasetningar vel þá var allt á þeytingi í líðan þinni fyrir örskömmu síðan og þú vissir ekki alveg hvernig þú áttir að láta þér líða. Núna eru ákvarðanir teknar og það er svo mikilvægt að um leið og maður tekur ákvörðun, hvort sem hún er rétt eða röng, þá líður manni strax betur. Þetta listamannamerki finnur svo sannarlega út hvernig það á að haga sér og orða þær setningar við þá sem geta togað í spotta og hjálpað áfram þinn veg.

Þú hefur dýrðlegt tengslanet því það gleymir þér aldrei neinn. Ég skora á þig að vera duglegri að hafa samband við fólk og byggja upp þetta tengslanet betur, já miklu betur. Þegar þú gerir þetta eflistu milljónfallt. Ég veit það getur verið nokkuð væmni að segja þetta, en bara falleg skilaboð, eitt símtal og þér mun líða svo vel því í þessu eina eru fólgnir svo miklir töfrar.

Þegar líður á mánuðinn gefur þú frá þér svo mikið daðursglit og augun á þér skína eins og fagurt ljós og jafnvel hundarnir elta þig heim. Þú hefur yfirmáta kynþokka sem þú notar óspart þó þú gerir þér ekki grein fyrir því þegar þú þarft á því að halda.

Nú óma ég góða tíðni og dreg tvö spil fyrir þig úr töfrabunkanum mínum. Fyrsta spilið tengir þig við gamla erfiðleika. Þegar þú hugsar um það erfiða sem hefur orðið á vegi þínum þá hendirðu í þig gömlum steini. Því að þótt þú hafir fengið stein í höfuðið fyrir mörgum vikum eða mánuðum og fundið mikið til, þá gerist það aftur þegar þú endurhugsar atburðinn að þú færð í raun sama steininn í hausinn.

Taktu bara eina mínútu í einu og þá ert þú orðinn magnari sem magnar upp gleði, ást og hamingju. Þú færð spil sem hefur töluna sex sem táknar fjölskyldu og vini og á þessu spili er mynd af fullt af kertum sem þýðir þú ert að tendra mörg ljós vináttu og ástar.

Knús & kossar,

Sigga Kling

Frægir Fiskar:

Ilmur Kristjánsdóttir leikkona, 19. mars

Páll Óskar poppstjarna, 16. mars

Elín Metta Jensen, fótboltakona, 1. mars

Rihanna, tónlistarkona, 20. febrúar

Baltasar Kormákur, leikstjóri, 27. febrúar

Albert Einstein, vísindamaður, 14. Mars

Steve Jobs, stofnandi Apple

mbl.is