Steingeitin: Þú þarft ekki að stjórna öllu

Elsku Steingeitin mín,

það er svo margt sem þú ert búin að hugsa um að framkvæma, gera og ýta áfram. Þú lætur það pirra þig að allt standi of mikið í stað og að ekkert sé nákvæmlega eins og þú vildir að það væri. Þetta er svolítið erfitt fyrir þig, en það eru umskipti á svo mörgu framundan hjá þér.

Þú færð upp í hendurnar verkfæri til að gera það sem þig langar, þó það sé ekki akkúrat eins og þú ætlaðir þér, kallast þetta lífið. Þú þarft að vera svolítið sniðug, fara rólegu leiðina og jafnvel ekki láta alla vita hvað þú ætlar þér, þá leysist þetta og þú finnur þinn frið.

Það eru margir í þessu merki nýbúnir að flytja eða eru að hugsa um að skipta um heimili og gera skemmtileg verkefni. Þessi sérstaka magnaða orka sem er að flæða inn í líf þitt gefur þér hamingju og er það ekki það eina sem vert er að leita eftir?

Nýir vinir eða merkilegt fólk sem hefur stórkostlega góð áhrif á þig er að færast nær tíðninni þinni. Þú ert að læra svo fallega að kalla á það sem þú vilt, en þegar þú gerir það máttu heldur ekki veita neitt viðnám.

Núna er tímabilið þar sem þú þarft ekki að stjórna öllu, því mátturinn og Alheimurinn er að senda þér og uppfylla gamla drauma sem þú hefur átt áður.

Ef þú ert að spá í ástina, þá þarft ÞÚ að gefa þig alla, sleppa fram af þér beislinu og taka skref lengra en þú þorir.

Peningar laðast líka að þér, en ef þú sýnir peningaorkunni ótta, þá nær hún ekki að flæða til þín. Svo þótt það sé kannski ekki þín uppáhaldssetning, þá skaltu hafa þessi orð í huga: „Þetta reddast“, því svoleiðis tikkar þú.

Knús & kossar,

Sigga Kling

Frægar Steingeitur:

Michelle Obama, forsetafrú, 17. janúar

Sigmar Vilhjálmsson athafnamaður, 3. janúar

Aron Már Ólafsson, Aron Mola, 12. janúar

Tómas Guðbjartsson læknir, 11. janúar

Dorrit Moussaieff fyrrverandi forsetafrú, 12. janúar

Svava Johansen kaupmaður, 7. janúar

mbl.is