Fiskarnir: Þakkaðu fyrir hvað þú ert flottur

Elsku Fiskurinn minn,

ég hef margoft lýst því yfir að það sé ekki til leiðinleg manneskja í þessu merki. Þér getur sjálfum fundist þú vera leiðinlegur og ekki eins frábær og þú vilt, en það er sko ekki skoðun þjóðarinnar. Svo í hvert skipti sem þú ætlar að grafa þér holu er gott ráð fyrir þig að eiga bara ekki skóflu, það tekur því ekki.

Allur þinn vanmáttur er fólginn í röngum hugsunum í heilanum á þér og líka því að stundum finnst þér þú eigir að stjórna veröldinni og öllum einn. Svo þú verður alltaf „multi-tasker“, getur svo margt og í raun og veru munt framkvæma svo miklu meira en þér dettur í hug í dag.

Ekki skrúfa niður orkuna þína og vera prúður, heldur efldu þann karakter sem inni í þér býr og þá verðurðu svo sannarlega í essinu þínu. Þú átt það til elsku frábæri vinur minn að vera með þráhyggjuhugsanir, hugsa um það sem þú heldur að þú viljir. En ef þú skoðar betur getur það bara verið eintóm vitleysa.

Tengdu fólk saman og hjálpaðu því áfram næsta mánuðinn, því með svoleiðis neti styrkistu allur og lífið verður einfaldara. Að einfalda lífið er eins og að taka til í herberginu, eldhúsinu eða bílsskúrnum, þér líður svo vel þegar allt er á sínum stað og allavega hóflegt skipulag á hlutunum.

Þú lætur þér of oft detta í hug að þú viljir ekki vera þar sem þú ert og viljir heldur vera á öðrum stað í lífinu og setur þar af leiðandi inn leiðinlegar hugsanir þar sem þú ert. En trixið við það að komast þangað sem þú vilt er að blessa allt í kringum þig og þakka fyrir það. Sem dæmi ef maður er feitur og vill verða mjór, þá er maður með ótrúleg leiðindi í kringum það að geta ekki misst kíló og orðið mjór. En um leið og þú þakkar fyrir það hversu flottur þú ert í dag ertu mörgum skrefum nær þínu takmarki eða að fá það sem þú vilt.

Knús & kossar,

Sigga Kling

Frægir Fiskar:

Ilmur Kristjánsdóttir leikkona, 19. mars

Páll Óskar poppstjarna, 16. mars

Elín Metta Jensen, fótboltakona, 1. mars

Rihanna, tónlistarkona, 20. febrúar

Baltasar Kormákur, leikstjóri, 27. febrúar

Albert Einstein, vísindamaður, 14. mars

mbl.is