Vatnsberinn: Október gerir þig sterkari

Elsku Vatnsberinn minn,

áfram skaltu halda veginn með auðmýkt, sleppa egóinu og tengja þig við alla velunnara og passa að hafa enga fyrirstöðu. Jafnvægið, friðurinn og framtíðin munu ráðast af þessu út næstu mánuði. Viðurkenndu bara ef þér hafa orðið á mistök, það er betra að koma því út en halda því inni.

Þú þarft ekki að tjá þig um allt saman, heldur að sýna þú sért lítillátur þó þú stefnir hátt. Það eru margir í þessu merki búnir að leita eftir allskonar aðstoð í kringum sig, til dæmis fá lánaða dómgreind og líka í sambandi við heilsu og útlit.

Á þessari blaðsíðu sem þú ert kominn á í lífi þínu finnur þú eins og það séu fiðrildi í maganum, finnur hvaða ást skiptir máli og hvaða ást er étandi, tætandi og niðurlægjandi.

Þú kemur með svo mikið af visku út úr þessu ári og þó það hafi verið allskonar fjör hefur þú gullhjartað til að nýta þér það. Þér verður gefið eitthvað sem er bæði mikilvægt og merkilegt, þú skalt leyfa þessari gjöf að koma til þín og vera þakklátur fyrir þær góðu breytingar sem hún færir þér. Október gerir þig sterkari af því þú ætlar þér að ná í styrkinn. Þú gengur frá lausum endum og klárar það sem þú hefur frestað því það fer í taugarnar á þér og tekur hið andlega niður.

Þrjóskan og seiglan sem eru þér meðfædd koma þér áfram; uppgjöf verður ekki valorð í þessu ferli þínu. Og þú átt eftir að skreyta líf þitt með nánum og djúpum tengingum við manneskjur sem eiga eftir að gæða líf þitt meiri lit en þig nokkurntímann grunaði.

Ég dreg eitt spil úr töfrabunkanum mínu og þar kemur þú upp sem kennari, með mikinn vísdóm, vernd yfir fjölskyldu þinni og talan fimm sem táknar ferðalög, allavega veislur og húmor.

Knús & kossar,

Sigga Kling

Frægir Vatnsberar:

Laddi, 20. janúar

Geir Sveinsson handknattleiksþjálfari, 27. janúar

Yoko Ono, listamaður, 18. febrúar

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, 1. febrúar

Þóra Arnórsdóttir, fjölmiðlakona, 18. febrúar

Andrea Röfn Jónasdóttir, fyrirsæta, 15. febrúar

Auðunn Lúthersson, tónlistarmaðurinn Auður, 9. febrúar

mbl.is