Desemberspá Siggu Kling í öllu sínu veldi

Sigga Kling veit hvernig desember verður hjá landsmönnum.
Sigga Kling veit hvernig desember verður hjá landsmönnum. mbl.is/Marta María

Spákonan Sigga Kling býður lesendum upp á funheita stjörnuspá á þessum kaldasta degi ársins. Ef þú veist ekki í hvorn fótinn þú átt að stíga þá er Sigga Kling með leiðarvísir að betra og innihaldsríkara lífi. 

Elsku Fiskurinn minn,

þú ert ástríðufullur, hlýr og glæsilegur og líka drepfyndinn og drengilegur. Þú hefur svo dásamlega frásagnargáfu og glæðir allar sögur lífi. Vinahópurinn þinn er litríkur og ólíkur og þú ert ávallt fyrstur til að mæta ef einhver á bágt. Þér er gefinn nægur tími og þú átt að gefa, nota og gleðja tímann þinn en ekki eyða honum.

Besti dagur ævi þinnar er núna, en það er þitt að skapa hann. Þú átt það nefnilega til að skjálfa yfir fortíðinni, kvarta yfir nútíðinni og hræðast framtíðina.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Tvíburinn minn,

það hefur allt verið töluvert út og suður í lífsmenginu þínu og þú ert ekki alveg viss um hvernig þú átt að sópa lífinu saman. En það er mín staðfasta skoðun að þetta fallega tungl sem var í Tvíburamerkinu rétt fyrir mánaðamót gerir líf þitt svo miklu auðveldara.

Þú hristir þig til, fangar hugrekkið og manst það að mótbyr er styrkur flugdrekans til að fljúga hærra og það tákn er sent þér. Hugrekki felst í því að kæra sig um kollótann um hvað er að óttast og það er bara óttinn sem einmitt getur stoppað þig. Þinn sanni sigurvegari er að koma í ljós og sá sem gengur sigurbrautina er aldrei hræddur, því þá væri hann ekki sigurvegari.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Sporðdrekinn minn,

þú þarft að muna það núna að enginn er betri en annar. Kirkjugarðarnir eru fullir af fólki sem við héldum að væri ómissandi.

Þú skalt skoða að þér gengur miklu betur ef þú ert þinn eigin herra, hvort sem það er í starfi, skóla eða í ástinni. Láttu ekki aðra hindra þig eða hefta, því þá ertu ekki frjáls. Frelsinu fylgir ábyrgð og þess vegna færðu svo oft þá tilfinningu til þín þú óttist það. Svo segðu NEI við sjálfan þig hátt og skýrt og svo við þá líka sem vilja hefta þig.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Hrúturinn minn,

þú átt það til að vera svo mikill hugsuður og getur hugsað of djúpt um lífið. En lífið er jafn eðlilegt og dauðinn og því er aðalatriðið að njóta tímans sem þú færð. Ekkert er sóun á tíma sem skilur eftir minningar og það er ekki hægt að kaupa lífið, það er alltaf gjöf.

Þú ert eins og gömul stytta, það er alveg sama hvaða hamfarir hafa dunið á þér, þá stendur þú alltaf keikur. Þetta er viss list og með þessu dregurðu að þér það fólk sem styður það sem þú vilt. Það er eitt sem þýðir alls ekki fyrir þig, sem er að fela þig frá vinum eða lífinu sjálfu.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Vatnsberinn minn,

þú hefur yfir að bera svo mikið tákn tilfinninga, en hefur verið svolítið alvarlegur yfir á að líta. Þer þér ekki að hætta að leika þér, því þá verður hugur þinn þungur og þú eldist bara. En eina ástæðan fyrir því að fólk eldist, er að það hættir að leika sér.

Hafðu engar áhyggjur af veröldinni, því heimurinn hefur ekki versnað, fréttaþjónustan hefur bara batnað. Þú þarft að nýta þér þá tækni sem þú hefur til að útiloka það sem þyngir anda þinn. Hvort sem það eru fréttir, fólk eða aðstæður.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Nautið mitt,

þú ert búin að vera að hugsa mikið á þessum athyglisverðu tímum sem við lifum á. En þú mátt ekki gefa þér leyfi að hvílast of mikið eða stoppa, sama hvað gengur á. Því þegar þú stoppar, þá stoppar tíminn og allt verður ekkert.

Þú þarft að skapa gleðina og hafa jól alla daga. Ef þér finnst enginn vera að hringja í þig og þú ert leiður yfir því, þá hringdu bara sjálfur. Hafðu miklu meira samband við þá sem koma upp í huga þinn og ef þú hugsar einhvern sérstakan, þá áttu að hringja strax.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Krabbinn minn,

horfðu vel í kringum þig því hamingjan er þar sem þú ert. Þú átt eftir að mæta svo fallegum örlögum sama hvaða leið þú ert að fara og hvort sem þú vilt fara hana eða ekki. Allt upphaf og breytingar eru hjá þér, svo vertu þakklátur þótt þú sért búinn að upplifa sársauka.

Ég ætla að draga fyrir þig tvö spil og þú færð töluna fimm sem er tákn breytinga fyrir fjármál og veraldlega vegferð. Og það er svo merkilegt að þú dregur líka spaðaþristinn sem hjálpar þér að efla þriðja augað og næmni, sem laðar til þín ást.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Ljónið mitt,

þú ert búinn að vinna ýmsa sigra og tapa nokkrum líka. Skoðaðu fyrst og fremst það sem þú hefur gert vel, því þá gengur betur í því. Ekki dæma þig fyrir nokkurn skapaðan hlut, því þú átt það til að vera dómharðasta merkið.

Desember er svo öflugur inni í lífi þínu, og sérstaklega í kringum, 13, 14 og 15 desember. Þú sérð að allt lagast eftir þann tíma og einu vopnin sem þú færð í hendurnar eru heiðarleiki og frumleiki. Fram að þeim tíma verður eins og þú sért á skautasvelli og ert ekki búinn að æfa þig nóg og vel. Æfingin skapar íslandsmeistarann og aukaæfingin skapar heimsmeistarann.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku hjartans Meyjan mín,

Venus er svo sterkur yfir öllu hjá þér og hann lyftir þér upp í gleði og meiri gleði. Og hvað vill maður annað en að líða vel og vera hamingjusamur? Ekki neitt! Svo gleðin heldur í báðar hendur þínar og þú finnur ástríður til að gleðjast með öðrum yfir því sem þeir hafa áorkað.

Það er náttúrulega alfarið þitt að vita og velja hvar þú vilt vera í þessu kapphlaupi lífsins. En eftir 20. desember er vinna og heilsa í fyrirrúmi og að setja sig í gamla góða keppnisskapið ef þú vilt ekki að aðrir drattist fram úr þér. Þetta er valkostur, en þú klárar allt sem þú ætlar þér og það er sko alveg nóg.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Vogin mín,

eins og þú veist mætavel eru nauðsynjar sálarinnar ekki keyptar fyrir peninga. Þar af leiðandi geturðu líka séð að lífið er bara fengið að láni.

Að vinna mikið er það besta sem þú getur gefið sálinni þinni í desember. Og þá þarf það ekki endilega að vera vinna sem gefur peninga, heldur að klára það sem þú átt ólokið og vera sífellt að gera eitthvað. Þá munu áhyggjurnar ekki þvælast fyrir þér og þær geta steindrepið mann ef þær þvælast fyrir okkur. Þú ert í nógu miklu peningaflæði, svo vertu opin og hugrökk, því það er miklu betra.  Ég var að segja að peningar skiptu kannski ekki öllu, en það er betra að grenja á Saga Class en aftast í strætó, því peningar skapa ekki hamingju en geta samt haft róandi áhrif á taugakerfið.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku hjartans Bogmaðurinn minn,

þú hefur enga þolinmæði fyrir leiðindum og veist ekkert verra en að láta tímann líða og að láta þér leiðast. Þessi mánuður verður sko alls ekki rólegur, en hann gæti byrjað með blankalogni og engu sérstöku.

Það eina sem þú skynjar er að þú sért að rífast inni í þér, svipað og þegar ég segi: „Þú ert óþolandi Sigga, það er allt svo ömurlegt“, þá heyri ég eins og aðra rödd segja: „Hættu að vorkenna þér, drífðu í þessu strax“ og þá byrja báðar Siggurnar að hlægja.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Steingeitin mín,

þetta eru svo sannarlega merkilegir tímar sem þú ert að fara inn í næstu 40-50 daga, það er eins og allt ætli að gerast á þinni vakt. Allt réttlæti er fólgið í sannleikanum í kringum þig, þú finnur svo mikla nauðsyn til að brjótast út úr vanamynstri sem hefur verið að tefja þig um langan tíma. Vaninn er eins og snjókorn sem smátt og smátt hylur jörðina og þegar nóg er komið af þeim kemur snjóflóð.

Þú stendur rétt fyrir framan það og hvort sem þú vilt eða ekki og þá þarftu að brjótast út úr vananum. Þetta verða þín mestu gæfuspor um langan tíma. Þann 14 desember á nýju tungli muntu fara að finna að fólk snýr sig næstum úr hálslið þegar þú gengur framhjá. Þú dregur að þér ástina, svo opnaðu augun svo þú sjáir hana.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál