Krabbinn: Það mun geisla af þér 2021

Elsku hjartans Krabbinn minn,

smá tilfinningatitringur og sviti angrar þig í upphafi árs. Þú finnur ekki alveg taktinn þinn, en ert samt með hann alveg á hreinu. Gefðu þér tíma til að hvíla þig áður en þú byrjar þetta nýársball, því þér er svo sannarlega boðið.

Þetta ár gefur þér töluna þrjá, sem sýnir þú hafir svo miklu miklu meiri hæfileika en þú hélst, en eru svolítið geymdir inni í skáp. En þú munt opna þennan skáp og sjá úr hve miklu þú hefur að moða og strax í febrúar sést hver aðaldansarinn á þessu balli er.

Þú elskar svo mikið og svo kært lífið að það geislar af þér og þar af leiðandi vilja allir bjóða þér upp í dans. Vandaðu því vel valið í því við hvern þú vilt dansa á þessu ári. Og ég segi þetta vegna þess að þú átt það til að vera ekki nógu mannglöggur. Farðu alltaf eftir þinni fyrstu tilfinningu, því þegar þú finnur fyrir fiðrildum í maganum er dansfélaginn réttur og þetta á við allt sem þú vilt njóta í lífinu.

Mars gefur þér fjölskyldu, fegurð, traust og gott karma sem þú ert búinn að safna upp. Og þú átt sko heilmikið inni hjá karmanu og þetta er árið sem er útborgað. Þér mun kannski finnast sumarið ekkert vera rosalega auðvelt, en það er vegna þess að breytingar eru boðaðar þá og það breytist eitthvað sem virðist frekar léttvægt. En sú breyting verður eins og dómínókubba áhrif sem gefur þér meira og meira og í því muntu framkvæma meira en þú þorir. Því að áfram skaltu fara og þú munt hafa það sem mottó að „þú gerðir það bara.“

Þú elskar að gera allt í skorpum og verður svo úrvinda á eftir, en verður samt þakklátur yfir að hafa gert gott dagsverk því í þessu felst líka að þú ert fæddur til að gera góðverk. Og í hverju góðverki sem þú gerir felst lítill lottóvinningur sem stækkar og stækkar með hverju góðu verki sem þú gerir.

Haustið sýnir þér að þú ert með hlaðborð af tækifærum, tilfinningum og ást. Merkilegir hlutir fyrir þá sem eru að leita að ástinni munu gerast yfir sumartímann og staðfesting á því verður seinnipartinn á árinu. Þeir Krabbar sem eru í sambandi munu meta það mikils og efla ástina með góðsemi og gleði. Apríl, maí, júní, júlí og ágúst verða sterkustu mánuðir þessa árs og ég vil sérstaklega tala um ágústmánuð því þá verðurðu búinn að ganga frá svo mörgu sem þú ætlaðir þér og sjá til þess að nýtt tímabil hefjist. Talan þrír er aðlögunartala og þú átt auðvelt með að aðlaga þig að öllum aðstæðum sem birtast þér og líka allskonar fólki sem er ólíkt innbyrðis. Þér verður boðið upp á margt og þó þú þiggir ekki allt, þá muntu velja vel og þetta ár gefur þér ótrúlegan styrkleika til að mæta næstu árum.

Kossar og knús,

Sigga Kling

mbl.is