Nýársspá Siggu Kling er engri lík

Sigga Kling hefur ýmsilegt að segja um 2021.
Sigga Kling hefur ýmsilegt að segja um 2021. mbl.is/Marta María

Sigga Kling er mætt með stjörnuspá fyrir 2021. Það verður margt í gangi hjá merkjunum 12 í dýrahringnum og mun fólk takast á við sorgir og sigra, upplifa gleði og hamingju og svo munu einhverjir finna tilgang lífsins. 

Elsku, Hrúturinn minn,

þú ert búinn að ganga í gegnum merkilegt ár sem hefur haft allskonar áhrif á tilfinningar þínar og þroska. Þegar þetta ár er að byrja, geturðu að mörgu leyti verið þakklátur fyrir það sem yfir þig dundi. Þú ert harðákveðinn í því að skipta um gír í þessum merkilega janúarmánuði sem þú ert að fara inn í. Og þó þú leyfir þér dag og dag að vera í hlutlausum gír, skaltu bara gera það með gleði.

Þú ert að líta í kringum þig til að skoða margar áskoranir sem þú vilt færa þér og takast á við. Ein áskorun í einu er alveg nóg, því annars getur blaðran sprungið. Þetta tilfinningamikla og einlæga ár er sérstaklega að klappa fyrir þér þegar mars kemur. Þá finnurðu í öllum frumunum í blóði þínu að þú ert sá sem þú vilt vera. Á þessu tímabili eflast tengingar við fjölskyldu, gamla og nýja vini og ýmislegt fólk sem auðgar anda þinn.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Nautið mitt,

þú ert pínulítið ringluð á þessum tímamótum sem eru núna. Þú ert að safna saman orkunni sem þú misstir og ert eins og að vakna. Þegar þú vaknar þá velurðu þér daginn, þú ákveður hvort þú ætlir að gera hann góðan eða ætlir að blóta öllu í sand og ösku. Þegar þú ert búin að taka til í kringum þig skaltu bjóða hamingjunni inn í þetta ár. Og vera tilbúin að skapa meira, gera listrænt í kringum þig og sprengja búbbluna sem þú hefur getað fest þig í og sérstaklega ef hún er ferköntuð.

Þegar seinniparturinn í janúar heilsar þér líður þér eins og þegar beljunum er hleypt út að vori, þú getur ekki linnt þér fyrir kæti og gleði og það er besta blandan til að vera hamingjusamur. Það eru fiðrildi í maganum á þér og eftirvænting og þú ert svo opin fyrir ástinni, hvort sem hún er hjá þér núna eða langi til að heimsækja þig. Þessi tilfinning verður hjá þér allavega fram á vorið og með þessu margfaldarðu líðan þína til hins betra. Þú ert á tölunni einn eða upphafi á þessu ári, það er svo margt að setjast hjá þér eða er að koma til þín sem sýnir þér svo sannarlega að þú ert í yndislegum startholum fyrir næstu níu ár.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Tvíburinn minn,

þú ert að fara inn í glymjandi skemmtilegt ár sem þú byrjar að taka með trompi upp úr miðjum janúar. Það eina sem getur stoppað þig aðeins er að ef þú ert með annan fótinn í fortíðinni og hinn í framtíðinni þá pissarðu á nútíðina. En nútíðin er og verður alltaf eina stundin sem þú átt í raun. Það leysast upp gömul sárindi og fyrirgefning og friður tindra í kringum þig fyrstu mánuði ársins. Þú ert svo tilbúinn að gefa þig allann í ástina, sem þú hefur kannski ekki verið alveg 100% viss um þú ættir að gera.

Júpíter er svo yndislega ferskur og vinalegur og hjálpar þér í staðfestunni og gleðinni á sama tíma. Þú þarft að skoða það vel að hamingjan er ekki fólgin í skynseminni, heldur ímyndunaraflinu og þegar þú bætir ímyndunaraflinu við kátínu þá sérðu stjörnurnar skýrar.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku hjartans Krabbinn minn,

smá tilfinningatitringur og sviti angrar þig í upphafi árs. Þú finnur ekki alveg taktinn þinn, en ert samt með hann alveg á hreinu. Gefðu þér tíma til að hvíla þig áður en þú byrjar þetta nýársball, því þér er svo sannarlega boðið.

Þetta ár gefur þér töluna þrjá, sem sýnir þú hafir svo miklu miklu meiri hæfileika en þú hélst, en eru svolítið geymdir inni í skáp. En þú munt opna þennan skáp og sjá úr hve miklu þú hefur að moða og strax í febrúar sést hver aðaldansarinn á þessu balli er.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Ljónið mitt,

árið þitt byrjar með yndislegum hugsunum, kraftmiklum fyrirætlunum og orðið þrjóska er ritað á enni þitt. Þú passar svo upp á alla í kringum þig, fjölskylduna og nánustu vini og þessvegna er eins gott að pirra ekki hópinn þinn. Það býr í þér svolítill mafíósi, en þú skalt alls ekki láta alla vita hug þinn, segðu frekar minna og gerðu meira.

Þú verður mjög sterkur á andlega sviðinu og það opnast fyrir þér nýjar víddir og nýr skilningur. Öld Vatnsberans fer þér svo einstaklega vel og þú tengir þig við lífið á svo frábæran hátt. Það er mikilvægt fyrir þig á þessu ári að vera alveg á tánnum. Og þótt þú sért búinn að ná árangri skaltu ekki slaka á, heldur vertu viðbúinn og varkár eins og ljón eyðimerkurinnar. 

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Meyjan mín,

janúar er þinn tími og fer svo dásamlega vel af stað þetta ár sem gefur tóninn að uppskeru þessa árs. Þú ert ekki að láta litlu hlutina bíta í þig eins og oft áður, heldur segir við sjálfa þig „ég er ekkert excel þetta má bara vera svona eða pínulítið því fullkomið er ekki endilega það sem ég er að sækjast eftir“. Þetta er tíminn sem þú setur út stóru vængina þína, flýgur hátt og verður ekkert að pirra þig á hvar eða hvernig aðrir fuglar eru að fljúga.

Sköpunargáfa þín eykst með hverjum mánuði, þú sérð á þér nýja þætti og sköpunin á sér engin takmörk. Skoðaðu það í byrjun árs hvert þú vilt að árið ferðist með þig, því lífið er svolítið eins og að panta leigubíl, þú verður að segja bílstjóranum hvert þú ætlar til að komast á leiðarenda. Svo teiknaðu á nokkur (eða mörg) blöð þá upplifun sem þú elskar að komi til þín.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Vogin mín,

þó þér hafi fundist það hafi verið titringur í hjartanu á þér og í kringum þig er það bara jarðskjálfti hamingjunnar. Satúrnús færir þér kraft til að vinna í þínum starfsframa og þú ferð aftur til fortíðar og sækir gömlu þig og það sem þú varst að gera þá. Hversu mörg ár tilbaka veit ég ekki, en það er eins og þú sért að byrja upp á nýtt eða nýtt líf. Þú gerir hlutina sjálf eða öðruvísi og verður ánægðari með hverju einstaka tímabili sem skreytir þetta ár.

Júpíter er sterkt yfir þér líka og gefur þér gjafir, hjálpar við gamlar óskir sem rætast og þetta eru jafnvel óskir sem þú varst næstum búin að gleyma þangað til þær birtast. Þú verður hissa aftur og aftur; „Hvernig er þetta hægt“ áttu oft eftir að segja við sjálfa þig. Þú verður svo sterk í því að tengja sjálfið þitt við Alheiminn og bíður þar af leiðandi ekki lengi eftir svari.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Sporðdrekinn minn,

janúar fer rólega af stað og þú munt svo sannarlega elska það að hafa bara rómantík og kertaljós, horfa á góðar myndir og slaka á ef þú mörgulega getur. Það er ekkert sem snarsnýr veröldinni þinni í upphafi árs 2021 en gefur þér samt svo mikla möguleika á því að líma það saman sem hefur brotnað á síðasta ári. Þér tengist hin fallega heilaga tala sjö og það sem hún gefur þér er andlegur styrkur og betri heilsa. Hún færir þér einnig tækifæri til að taka þig á í þeim þáttum sem þú vilt vinna í, sem eru náttúrulega númer eitt, tvö og þrjú þú sjálfur.

Það eru svo sannarlega góðir mánuðir að birtast þér og til þess að þú sjáir það verður þú að skilja og vita hvað í raun og verið er mikilvægt. Þú getur pirrað þig á vinnu eða veröldinni og ef þér finnst að eitthvað sé að gera þér grikk, þá er það í raun og veru ekki satt heldur bara þín eigin hugsun og þitt egó.  Allt í lífinu okkar eru venjur; þú setur öryggisbeltið á þig, sem er venja, burstar tennurnar hálfsofandi, það er venja og þú gerir margoft hluti sem þú vilt ekki, því þú venur þig á það.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Bogmaðurinn minn,

þú kveður gamla árið með stæl og byrjar nýja árið með hrifningu. Þú ert á svo hárri tíðni á þessu guðsblessaða ári að allt gerist svo ofurhratt. Þér fannst síðasta ár ekki nógu skemmtilegt, en núna ertu með töluna átta sem tengir þig og hún er tákn eilífðarinnar. Hún er líka tákn mikils hraða þar sem þú þarft að ákveða hvað þú vilt á augabragði, annars er eitthvað nýtt komið. Þetta er eins og Gettu betur í sjónvarpinu, þú þarft að vera tilbúinn undir hvað sem er.

Allskyns viðskipti og brask, flutningar og vinna allt er einhvernvegin að koma sterkar til þín og ég vil heyra þig segja: Ég er tilbúinn!

Þú ert með réttu tölurnar í lífsins bingói, svo passaðu upp á miðann þinn.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Steingeitin mín,

stundum er allt sem þarf til í lífinu er að bara vera, en þú ásælist meiri kraft til að vera og það er svo sannarlega það sem þú munt gera þetta ár. En þú skalt skoða það vel að þú þarft ekki að vera ofur stillt Steingeit, heldur að vera tilbúin að prófa lífsins lystisemdir og skilja það að eina sambúðin sem þarf í raun að ganga upp er sambúðin við sjálfa þig. Þú getur skilið við allt annað í lífinu en þú þarft að vakna og sofna með sjálfri þér og þarft að hanga með þér hverja mínútu. Þess vegna skaltu aldrei bíða eftir annarra manna hrósi heldur klappa sjálfri þér á bakið, bera virðingu fyrir þér, standa með og elska hina einstöku þig skilyrðislaust.

Það er mikill kraftur sem felst í fyrstu mánuðum ársins og með hverri hugmynd fæðist líf og það munu svo sannarlega verða skreytingar í lífi þínu næstu mánuði því þú hefur allt að vinna.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Vatnsberinn minn,

nú er öld Vatnsberans gengin í garð og þú verður svo hoppandi kátur þetta árið. Þú tengir þig við móður Jörð af öllu hjarta og finnur hippann sem í þér býr. Þú átt eftir að aðhyllast allskyns kenningum sem tengjast friðnum og þannig finna ljósið skína svo skært í kringum þig, svona eins og vinkona okkar Yoko Ono lét gera í Viðey. Þú sérð svo skýrt hvað er rétt og hvað er rangt og lærir með tilþrifum að fara milliveginn. Þú semur þér í hag í sambandi við ólíklegustu hluti. Og ef þú ert að skoða það að skipta um heimili þá finnurðu himneskan stað, ef þú hefur ekki nú þegar fundið hann.

Þú leyfir þér kæruleysi, því þú átt það skilið. Þú þarft svo mikið frelsi litli hippinn minn og þar af leiðandi má enginn ráða yfir þér eða stjórna eins og þú værir bara peð í taflinu. Þetta gerist líka hvort sem þú ert að vinna hjá sjálfum þér, ert í námi eða hvað sem er, að þú átt eftir að fá meira frelsi til að gera meira við tíma þinn sem gleður þig.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

Elsku Fiskurinn minn,

árið þitt byrjar eins og glitský á himni, eitthvað svo óraunverulegt og eitthvað svo fallegt og gefandi. Ég fór hreinlega að gráta þegar ég sá glitskýin sem vermdu flestalla landshluta síðustu daga ársins. Þau tákna að eitthvað svo óraunverulega gott sé í aðsigi. Þú vinnur þig út úr allri sorg og sút sem hefur lamið þig og þú lætur ekkert minna en regnbogann duga.

Þú verður mjög spenntur fyrir tilverunni þessa næstu mánuði sem heilsa þér og þar af leiðandi færðu spennandi tíma. Ef þú hefur áhyggjur af fjármálunum þínum, þá leysast þau um leið og þú horfist í augu við þau, því möguleikarnir eru allt um kring.

Þú átt eftir að finna hversu orðheppinn og næmur þú ert, og þar sem þið Fiskarnir eruð tengdir vatnsorkunni gefur þessi öld Vatnsberans þér svo mikla fyllingu í hjarta og trú á því að þú getir, að það er fátt sem getur haldið þér niðri.

Farðu neðst á forsíðu mbl.is til að lesa spánna í heild sinni. 

mbl.is