Steingeitin: Þú þarft að opna faðminn

Elsku Steingeitin mín,

stundum er allt sem þarf til í lífinu er að bara vera, en þú ásælist meiri kraft til að vera og það er svo sannarlega það sem þú munt gera þetta ár. En þú skalt skoða það vel að þú þarft ekki að vera ofur stillt Steingeit, heldur að vera tilbúin að prófa lífsins lystisemdir og skilja það að eina sambúðin sem þarf í raun að ganga upp er sambúðin við sjálfa þig. Þú getur skilið við allt annað í lífinu en þú þarft að vakna og sofna með sjálfri þér og þarft að hanga með þér hverja mínútu. Þessvegna skaltu aldrei bíða eftir annarra manna hrósi heldur klappa sjálfri þér á bakið, bera virðingu fyrir þér, standa með og elska hina einstöku þig skilyrðislaust.

Það er mikill kraftur sem felst í fyrstu mánuðum ársins og með hverri hugmynd fæðist líf og það munu svo sannarlega verða skreytingar í lífi þínu næstu mánuði því þú hefur allt að vinna. Þetta ár tengir þig við töluna sex sem færir þér ást þar sem þú vilt elska, gefur þér öryggi svo þú getir verið frjáls og sýnir þér maka sem þú getur haft til frambúðar ef þú kærir þig um. En þú verður að vera tilbúin að opna faðminn fyrir ástinni og stinga þér í djúpu laugina. Það er farsælast fyrir allar Steingeitur að leysa vandamál í öllum sínum fjölskyldum án þess að til uppgjörs komi. Þetta er það ár sem gefur sameiningu og fyrirgefningu og leiðir þig áfram rétta veginn.  Þú skalt temja þér þá hæfni að tala ekki illa um aðra, því hafirðu ekkert gott að segja, þá skaltu bara þegja – í því felst ljósið sem á eftir að lýsa þér veginn.

Þú ert búin að fá margt upp í hendurnar sem þú hefur óskað þér og það er svo mikilvægt hjartagull að þó þú hafir að svo mörgu leyti allt sem þú þarft máttu alls ekki missa sjónar á þeim parti af lífi þínu sem er svo góður. Þetta ár gefur þér ennfremur að þú átt eftir að hrinda svo mörgu í framkvæmd og átt eftir að bæta við þig hvort sem það er í námi eða vinnu. Þetta getur tekið lengri tíma en þú óskar, en ekki vera óþolimóð því allt gerist á hárréttum tíma.

Júní er þinn mánuður, því það verður eitthvað sem gerist þá eða í kringum þann mánuð sem fær hjarta þitt til að slá örar, þú finnur spennuna magnast og þér líður vel. Annars verður sumarið átakalaust að mestu leyti, en mest spennandi tíminn hjá þér verður síðustu fjóra mánuði ársins. Þetta er bæði tengt hinu veraldlega og lífinu almennt.

Kossar og knús,

Sigga Kling

mbl.is