Vogin: Ást, trygglyndi og vinátta einkenna árið

Elsku Vogin mín,

þó þér hafi fundist það hafi verið titringur í hjartanu á þér og í kringum þig er það bara jarðskjálfti hamingjunnar. Satúrnús færir þér kraft til að vinna í þínum starfsframa og þú ferð aftur til fortíðar og sækir gömlu þig og það sem þú varst að gera þá. Hversu mörg ár tilbaka veit ég ekki, en það er eins og þú sért að byrja upp á nýtt eða nýtt líf. Þú gerir hlutina sjálf eða öðruvísi og verður ánægðari með hverju einstaka tímabili sem skreytir þetta ár.

Júpíter er sterkt yfir þér líka og gefur þér gjafir, hjálpar við gamlar óskir sem rætast og þetta eru jafnvel óskir sem þú varst næstum búin að gleyma þangað til þær birtast. Þú verður hissa aftur og aftur; „Hvernig er þetta hægt“ áttu oft eftir að segja við sjálfa þig. Þú verður svo sterk í því að tengja sjálfið þitt við Alheiminn og bíður þar af leiðandi ekki lengi eftir svari.

Janúar er ekki skrifaður alveg eins í skýin eins og þú vildir, en það er svo sannarlega allt í lagi því allt er eins og það á að vera. Febrúar og mars færa þér orku á fullu flæði inn í hverja einustu frumu þína og þér finnst eins og þú snertir ekki jörðina þó þú sért á fullri ferð.

Talan sex er tengdust þér á þessu ári og táknar hún ást, trygglyndi, vináttu og leiki. Við erum fædd á þessa Jörð til að leika okkur, svo ef þú gerir vinnuna eða það sem þú ert að fást við að leik sérðu tilganginn. Á þessari tölu borgar sig ekki að hafa nein leyndarmál sem ekki mega sjá dagsljósið. Vertu frekar einlæg og segðu hlutina eins og þeir eru og láttu líka vita hvernig þú vilt hafa samskiptin við þitt fólk. Talan sex færir líka óvenjulega heppni og er góð til að fjárfesta í húsnæði sem þarf þó að hafa tilgang; það er að segja húsnæðið sjálft, því tilgangurinn helgar meðalið.

Fyrripartinn á árinu skaltu hafa huga þinn staðfastann á verkefnunum og gera allt sjálf því þú þarft enga lögfræðinga eða aðra „fræðinga“ en sjálfa þig til þess að fá það sem þú vilt.

Sumarið líður hratt eins og örskot, því þú hefur líka svo mikið fyrir stafni þá. Og þegar maður hefur mikið að gera hefur maður ekki tíma til að hafa velta sér upp úr eigin veseni. Svo þú dregur hausinn úr rassinum á þér og hættir gjörsamlega að hafa áhyggjur, því áhyggjur laða bara að sér fleiri og eru algjör tímasóun. Þú munt aldrei trúa hvað þetta ár mun gefa þér, þetta er eins og stór jólapakki með allskonar nýjungum sem eru reistar á gömlum grunni.

Og elsku hjartað mitt, þú skalt hemja pirring og reiði því í öllum þessum tilfinningum geturðu látið svo tilgangslausa hluti fara í taugarnar á þér og þú þolir það allra síst sjálf þegar þú missir út úr þér röng orð. Það eru margir í þessu merki sem gifta sig eða trúlofa sig, því þetta er ár sameiningar fyrir þig.

Kossar og knús,

Sigga Kling

mbl.is