Hrúturinn: Allt er að frétta þegar þú ert í stuði

Elsku Hrúturinn minn,

þú hefur svo sérstakan kraft að ég vil líkja þér við Snæfellsjökul. Það sem er svo merkilegt við hann er að hann er tær orkustöð og magnar upp þær tilfinningar sem þú hefur í brjóstinu þegar þú ert í kringum hann. Það hafa margir gift sig á þessum jökli, en líka ótalmargir framið sjálfsvíg þar. Núna ákveður þú hvaða afstöðu þú ætlar að taka, því þú hefur einstæða orku til að magna upp allt sem er að gerast. Og allt er að frétta þegar þú lætur til skarar skríða.

Þú ert frumkvöðull, en stundum finnst þér þú sért minnimáttar og ef þú skoðar það orð svolítið vandlega, þýðir það bara að máttur þinn sé minni vegna þess þú ákvaðst það.

Ég dreg fyrir þig tvö töfraspil og fyrsta spilið færir þér töluna fimm sem gefur þér léttara og skemmtilegra líf. Og þar er mynd af orkustöðinni (eða Chakra) sem tengir þig við hálsinn og orðin sem þú segir. Þú hefur þessa orkustöð svo sterka, en segðu bara skýrt það sem þú vilt. Ekki ímynda þér að fólk viti hvað þú hugsar, því það eru ekki allir spámenn í kringum þig. Með því að gera þetta skýrist heildarmyndin, ástin og það sem lífið er að spinna fyrir þig. 

Hitt spilið hefur töluna þrjá og það er líka tákn um sérstaka orkustöð sem er sólarplexus. Sú orkustöð er sterk hjá þér og tilfinningarnar þínar eru blíðar og fallegar, sérstaklega næstu 90 daga. Það er svo spennandi og kraftmikið nýtt tungl þann 11. febrúar og þar færðu sérstaklega tækifæri til þess að láta ljós þitt skína. Þeir sem umgangast þig munu sjá nýjan, breyttan og betri karakter. Svona magnaður sólarplexus gefur töfra, þakklæti og frið.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is