Krabbinn: Þú verður ánægður og hamingjusamur

Elsku Krabbinn minn,

það er bara þannig að mótlætið skerpir og gerir þig sterkari, alltaf. Breytingar sem þú varst ekki alveg búinn að sjá fyrir eru yfirvofandi og þú verður ótrúlega ánægður og hamingjusamur þegar þú sérð að þær muni gera líf þitt betra. Það kemur nefnilega fyrir þig eins og marga að maður nennir ekki að breyta lífinu þótt það sé jafnvel til góðs. En núna stingurðu gat á búbbluna sem er í kringum þig og þú ert í og þú tekur áhættu sem nýtist þér svo sannarlega vel. Þú átt ekki eftir að sjá það alveg fyrir þér hvernig þú ferð að þessu öllu saman, en það skiptir engu máli því útkoman verður spennandi.

Þú ert búinn að hafa áhyggjur af fjármálum en þú þarft að vera stórhuga. Og ef þú skoðar aðeins betur eru miklir möguleikar á því að breyta og bæta og fá miklu betri hagnað af því sem þú ert að gera og ætlar að framkvæma. Leitaðu svolítið ráða og skoðaðu hlutina upp á nýtt, því það er nefnilega eitthvað í smáa letrinu eða eitthvað sem gæti verið að fara fram hjá þér sem gæti breytt útkomunni.

Það er svo margt að gerast þegar líða tekur á þennan mánuð og í upphafi næsta mánaðar. Þú þarft að vinna mikið að því sem er og þú vilt að komi til þín. Þú verður mjög ákveðinn í orðum og gjörðum, svo mikið að margir verða hissa, en verða ánægðir með þig.

Þú færð verðlaun eða viðurkenningu þegar líða tekur á vorið og verður alsæll með þig. Ef líf þitt er í einhvers konar stoppi og þú gengur bara í hringi í stofunni hjá þér og ert á Facebook allan tímann sem þú hefur aflögu þá ertu svo sannarlega í stoppi. Út með svona tímaþjófa, því þú átt að elska og næra tímann sem þér er gefinn!

Ég dreg fyrir þig tvö spil úr töfrabunkanum og fyrir ykkur sem eruð á lausu fáið þið töluna einn sem er upphaf af mikilli ást og samheldni. Spil númer tvö hefur töluna tíu sem er í raun og veru líka talan einn sem færir þér styrk og nýtt upphaf. Svo það er ýmislegt að gerast sem þú hefur engin áhrif á en skreytir líf þitt og gerir það meira spennandi!

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is