Ljónið: Það væri ekkert að frétta ef þú værir ekki til

Elsku Ljónið mitt,

alveg sama þó þú reynir að forðast athygli, þá mun ljósið skína á þig, eins og það sé falin myndavél alls staðar. Það verða ekki allir ánægðir með þína skoðun á mjög mörgu, en þér á að vera alveg slétt sama því þú munt standa með sjálfum þér í einu og öllu. Og ég get svo sannarlega sagt að þú ert eina manneskjan sem þú þarft að elska því þú getur ekki gefið neinum meiri ást en þú sýnir sjálfum þér. Einlæg og rétt ást er sú þegar þig langar frá dýpstu hjartarótum að gera meira fyrir þá persónu sem þú elskar en þú gerir fyrir þig.  Uppspretta lífsins er að gefa þér meiri gleði og ánægju hvar sem þú ert staðsettur í lífinu.

Það hefur verið mikið um brölt og breytingar hjá þér og þegar þú skoðar vel þá ertu á miklu betri stað en þú varst fyrir hálfu ári. Það er mikilvægt fyrir þig að skrifa einhvers konar dagbók, því þá sérðu með sanni hvernig líf þitt er að verða tærara og hreinna.

Þú ert svo afgerandi og ekkert væri líklega að frétta á þessari Jörð ef Ljónsmerkið væri ekki til. Svo vertu þakklátur fyrir þessa mögnuðu manneskju sem þú hefur að geyma, þá sérðu meira með hverri mínútu að þú getur breytt því sem þú vilt breyta og látið annað afskiptalaust.

Núna er eins og þú sért að sortera sokka, og þó þú finnir ekki alltaf rétta sokkinn á móti skaltu ekki dvelja við það, heldur einfalda hlutina og fleygja þeim sokk sem ergir þig. Alls ekki stoppa við innantóma þráhyggjuhugsun, því hún hefur ekkert að gera með kraft sálarinnar sem þú einn ert forstjórinn að.

Ástin verður krefjandi og stundum ekki réttlát og þannig er þetta bara. En þú skalt bara halda áfram á þinni leið án þess að hika því að þú ert lukkunnar pamfíll.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is
Loka