Tvíburinn: Leyfðu þér aðeins meira

Elsku Tvíburinn minn,

hugur þinn er að stríða þér núna og halda of mikið aftur af þér. Þér finnst eins og þú sért fastur í „Groundhog day“ sem þýðir að þú þolir afskaplega illa að upplifa þú sért að gera það sama aftur og aftur og dag eftir dag. Þetta gerir þráðinn þinn mun styttri og skapið stærra, en það getur líka verið gott.

Leyfðu þér bara að sofa aðeins meira og dreifðu slatta af kæruleysi út á morgunmatinn þinn. Þegar þú gerir þetta þá munu hugmyndirnar koma svo skýrt til þín og hvernig þú getur hreyft við lífinu þínu og uppskorið hreinan sigur. Það er nefnilega svo margt að tikka inn hjá þér um leið og þú leyfir þér að slaka á,  því þegar þú lætur eitthvað fara of mikið í taugarnar á þér þá missirðu kraftinn.

Þetta er svo sérstakur tími fyrir þig til þess að skapa og nýta augnablikin sem allra best. Í kringum þann 11. febrúar eru nýjar og frábærar fréttir að koma til þín og þá geturðu sett svo margt á fulla ferð og framkvæmt eins og vindurinn sjálfur.

Legðu þig fram í ástinni, sérstaklega tengt fjölskyldunni og mundu að þeir erfiðleikar sem þér finnst vera að sækja að munu sameina þá sem eru í kringum þig í ótrúlegri fegurð þegar upp er staðið. Það er svolítið í þér að vilja ekki angra aðra, en tíminn er akkúrat núna til þess að pota aðeins í fólk og láta vita af þér. Bara eitt símtal til þeirrar manneskju sem leitar á huga þinn segir þér þú átt að hringja STRAX, því eitthvað merkilegt og mikilvægt tengist þeim skilaboðum sem þú færð til þín.

Ég dreg fyrir þig tvö spil úr töfrabunkanum og fyrsta spilið gefur þér töluna sex sem táknar fjölskylduna, ástina og frjósemi. Þar er líka mynd af orkustöðinni sem heitir þriðja augað eða „Chakra“ og skilaboðin eru þau að þú búir yfir svo miklu innsæi, sem þýðir einfaldlega að sjá inn í sjálfan sig og finna á sér líkt og þú værir spámaður.

Spil númer tvö er með töluna þrjá og það færir þér aðlögunarhæfni kamelljónsins sem gefur þér sameiningu hvort sem það tengist ástinni eða góðu samstarfi sem stækkar hjarta þitt.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is