Tvíburarnir: Þú ert á hárréttum stað í lífinu

Elsku Tvíburinn minn,

rétt fyrir síðustu mánaðamót breyttist tíðni þín og orka, þá hugsaðirðu svo mikið og það kom til þín hvað þú ættir að gera og hvernig þú ættir að laga það sem laga þyrfti. Núna þarftu bara að minna þig á það daglega að það er líkt og þú hafir óskastein í hendi þinni. Svo hugsaðu bara það sem þú vilt og útilokaðu það sem þú vilt ekki.

Utanaðkomandi aðstæður geta þrengt að þér, en til þess að þær geti það verður þú að leyfa það. Til þess að halda styrk þínum skaltu sleppa að taka nærri þér það sem þú getur ekki breytt og muna að þú hefur áhrif á svo marga með þessum yndislega húmor sem er gjöf til þín. Þú átt eftir að finna að þú verður svo leikandi orðheppinn, þú þarft ekki að ofhugsa eitt augnablik það sem þú ætlar að segja, heldur renna setningarnar frá þér eins og þær væru prófarkalesnar af sérfræðingi.

Þú ert á hárréttum stað í lífinu, þótt þér finnist þú vera heftur niður þá er það bara tilfinning. Það er hægt að segja með sanni þú sért að standa þig ótrúlega vel, svo klappaðu þér á bakið og leyfðu þér að vera ánægður með þig og þín afrek.

Það eru hressandi og hreinsandi breytingar framundan og þú verður svo sannarlega tilbúinn í þær. Þú kemur þér alltaf á óvart með hversu miklu meira þú getur en þú heldur, svo núna getum við sagt að fyrsta sætið var hannað fyrir þig. Leyfðu engum utanaðkomandi að draga þig niður eða segja þér eitthvað annað en þú veist að er rétt og satt, því þú hefur töfrasteininn og máttinn sem honum fylgir í hendi þér.

Ástin verður eins og þú býst við henni; verður til blessunar ef þú býst við því frá þínum innstu hjartarótum, en hún verður hindrun ef þessi manneskja er kannski alls ekki nógu góð fyrir þig. Og þetta er eitthvað sem þú hefur bæði fundið á þér sjálfur og vitað. Þetta verður skemmtilegur mánuður sem gefur þér marga möguleika til að ná þeim árangri sem þú mátt svo sannarlega búast við.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is