Vatnsberinn: Þú ert að ganga í gegnum merkilega tíma

Elsku hjartans Vatnsberinn minn,

þú stendur á töluvert miklum tímamótum, bæði andlega og líkamlega. Þú ert orðinn það sterkur að þótt það sé brjálað rok í kringum þig mun þér bara finnast það sé gola.

Þegar þú ert kominn á þetta stig, þá ýtir ekkert við þér. Þú finnur að þú ert alveg pollrólegur og hafir sterka stjórn á stöðu þinni. Þú breytir umhverfi þínu, hvort sem það tengist vinnu eða skóla og raðar öllu rétt og í góðu skipulagi.

Það er einn merkilegasti tíminn á árinu sem þú ert að fara í gegnum, því hann er krafturinn sem þú munt byggja sterkar og sterkar á eftir því sem líður á árið. Þú hendir frá þér því sem skiptir engu máli og skilur ekkert í því að þú hafir ekki gert það fyrr. Og talandi um vindinn þá lætur þú erfiðleikana sem vind um eyru þjóta. Því þér finnst bara spennandi að byggja upp umhverfi þitt og sjálfan þig og sérð í þeim tilgangi að hver einasta fruma er að endurnýjast. Þessi tími eflir þá sem hafa verið veikir, hræddir eða þreyttir.

Þú gefst ekki upp á neinu sem skiptir máli, en aukaatriðin eru aukaatriði, þess vegna heita þau það. Þetta er tímabil heiðarleika og hyggjusemi, þú munt finna frá þínu innsta hjarta hverju þú getur treyst og það er eins og þú sjáir í gegnum þá sem ekki eru traustsins verðir.

Það er verið að kalla á þig til leiðtogastarfa og til þess að þú sjáir það þarftu að vita sjálfur að þú ert leiðtoginn í þínu lífi. Þú byggir upp betra umhverfi í kringum þig og með afli sjálfstraustsins sérðu svo skýrt hvern þú elskar og hver er þess virði að berjast fyrir.

Ástin er þannig að þegar þig langar sífellt að gleðja og gera meira fyrir aðra manneskju en sjálfan þig, þá ertu ástfanginn.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is