Vogin: Þú þarft að vera svolítið útsmogin

Elsku Vogin mín, það hafa verið afspyrnu litríkir og erfiðir, en ljúfir tímar undanfarið. Þú veist núna nokkurn veginn hver þú ert og hvað þú vilt. Og þú hefur alls ekki verið að fara út í of mikið, þótt þér finnist það samt. Og það kemur fljótlega upp sú staða að þú fáir gjafir; að óvænt manneskja reddi þér.

Svo fyrirætlanir þínar gefa þér þá útkomu sem þú vonaðist eftir en þú trúir kannski ekki á í augnablikinu. En augnablik er ansi stutt og er bara sá tími sem tekur mann að depla auga. Lífið er í raun og veru bara eitt augnablik og þess vegna eftir því sem þú verður eldri sérðu það skýrar hversu mikill sigurvegari þú ert.

Hinn 28. mars er fullt tungl í Vogarmerkinu og það er þitt tungl. Þú þarft að vera svolítið útsmogin og jafnvel grípa til hvítrar lygi til þess að ná því hlutverki sem þú vilt. Ef það skaðar engan þá skiptir það ekki öllu. Hvort sem það er í málum tengdum tilfinningum, verkefnum eða öðru sem þú ert að laða til þín verður útkoman svo sýnileg þegar Vogartunglið brosir við þér.

Þú lætur einhverja manneskju fara svo voðalega í taugarnar á þér að þú getur pirrast af minnsta tilefni. En til þess að gefa þessari manneskju ekki svo mikla stjórn á lífi þínu, þegar eitthvað frá henni veður yfir sálina þína, skaltu segja orðið útiloka. Því orð eru nefnilega máttur og orð eru álög, því orðin eru orka sem eyðist aldrei.

Mér finnst samt trúlega þetta sé persóna sem þér þykir afar vænt um, en það skiptir ekki máli því þú þarft að gera þetta til að halda góða skapinu. Og hvað vill maður í raun annað í lífinu en að vera í góðu skapi? Óskaðu þér þess með mætti þinna orða.

Ef þú ert í sambandi er mikilvægt að þú hafir yfirsýn yfir fjármálin, því þú berð ábyrgð á þeim. Þú átt ekkert annað skilið í lífinu en manneskju sem ber þig á höndum sér og vill gera allt til að létta þér stundina. Ef þér finnst búið að vera mikill pirringur lengi skaltu hugsa þig tvisvar um og spá í hvort þú hafir gefið hjarta þitt á réttan stað.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is