Ljónið: Þú verður að klára það sem þú byrjar á

Elsku Ljónið mitt,

það sem er allra mikilvægast fyrir þig í stöðunni er að klára það sem þú byrjar á. Þau Ljón sem hafa þetta meginmarkmið í þessum lesnu orðum eru á hárréttri leið.

Ef þú ert að byrja á einhverju merkilegu eða jafnvel einhverju ómerkilegu, og það er þá bara hvað þér finnst skipta máli, þá er aðalmálið að klára það. Og þá finnurðu þessa innbyggðu hamingjuorku sem þú hefur svo mikið af. Að vera ánægð eða ánægður eftir dagsverk, sama hversu mikilvægt það er fyrir þér, gefur þér ró og góðan svefn.

Svefn er svo nauðsynlegur til þess að endurnýja kraftinn og að laga það sem miður fer í líkama og heila og þess vegna þarftu að skoða að vera opinn fyrir nýjum, góðum venjum til þess að eiga góðan svefn. Þar á móti kemur líka að ef þú sefur of mikið þá verðurðu bara enn þreyttari. Núna er það rútínan sem skiptir máli, alveg sama á hvaða aldri þú ert. Og rútína byrjar alltaf á ákvarðanatöku og skipulagi og þrífst sko alls ekki í öngþveiti eða skipulagsleysi.

Þú átt eftir að byggja upp svo sterkar stoðir í kringum það sem ég er að segja þér og þú munt skynja það í öllum sjö billjón frumunum í líkamanum sem eru að vinna fyrir þig, að það er jafnvægið sem mun koma þér áfram.

Vitlausar venjur halda þér nefnilega í vitlausri orku, en þú getur með öllum þínum styrk breytt þessum venjum núna. Þegar þú gerir þessa einföldu hluti skilurðu sjálfan þig svo miklu betur, því þú hefur verið mjög leitandi að sjálfum þér og hver þú ert.

Svartsýna Ljónið segir að það sé ský fyrir sólinni, en bjartsýna Ljónið segir að það sé ský á bak við sólina.  Þú þarft að vera vakandi til þess að finna ilminn af rósunum og næstu níutíu dagar munu kveikja ástríður og elda bæði inni í þér og gagnvart því sem þú þráir.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is