Steingeitin: Þú hefur einstaka útgeislun

Elsku Steingeitin mín,

þú ert búin að vera að takast á við ýmislegt í lífi þínu sem þú hefðir kosið þú hefðir ekki þurft að gera. Hefur staðið sterk án þess að vilja það, en þessar flækjulykkjur sem hafa verið að krækjast fyrir þig er verið að losa um, svo ekkert festir þig niður.

Það er svo erfitt að stjórna þér elskan mín, svo þú notar það oft að fara í gír leikarans þegar þú ert að kljást við eitthvað sem þú bjóst ekki við. Það góða við þetta allt saman er að þú ert fljót að gleyma og apríl gefur þér töluna einn sem þýðir að þú ert að fara með opinn huga, hjarta og bros í þessa mánuði sem eru að birtast. Upphafið er í apríl að einhverju svo miklu betra og meira en þú skilur í augnablikinu. Spenna gæti hafa myndast í samböndum, ástar, vinnu eða vináttu, því það er ekki leikur einn að stjórna þér nema þú viljir það og leyfir.

Þú hefur þannig útgeislun að þú gætir kveikt eld með henni án þess að hafa kveikjara. Og þú notar þennan tíma til að kveikja bál í hjörtum annarra og vinna þá til þín sem þú vilt. En þú mátt alls ekki gera það af gamni þínu bara til þess að vita hversu langt þú kemst. Því þú ert að landa inn svo stórmerkilegum fiski eða fiskum, en það verður erfiðara fyrir þig að sleppa honum.

Láttu þér ekki leiðast þótt stundum þú sért í engu, því þar er akkúrat allt að byrja að gerast. Steingeitur þurfa að leika sér meira, ég var til dæmis stödd inni í Tæknivörum um daginn og þegar ég leit út um gluggann hafði ég séð það hafði snjóað verulega á bílastæðinu. Ég stökk út, lagðist á bílastæðið og byrjaði að búa til engil eins og enginn væri morgundagurinn. Svo voru fljótlega komin brosandi andlit í alla glugga að fylgjast með konu á sjötugsaldri búa til engil í snjónum.

En ég hafði þó ekki hugsað þennan gjörning alveg til enda, því ég gat ekki staðið upp aftur, svo komu þrír myndarlegir menn mér til hjálpar og þar mynduðust góð og skemmtileg tengsl. Svo leiktu þér eins og barn eða við börn, því þar færðu lykilinn að góðri líðan!

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is