Ljónið: Ekki taka afgerandi ákvarðanir um miðjan maí

Elsku Ljónið mitt,

það verður stundum svo yfirþyrmandi að allar þessar tilfinningar sem streyma eru eins og bílar á hraðbraut gegnum huga þinn. Þú getur verið í svo ofboðslega góðu skapi hálfan daginn, svo sérðu ekki birtuna sem lýsir þér hinn helminginn af deginum. Þarna skiptir öllu máli orðið jafnvægi, að fara ekki mjög hratt svo hátt upp að þú lamist af hugarþreytu eftir einhvern tíma dags. Þegar þú spennir þig svona mikið upp, þarftu að segja: Vertu róleg elskan mín, róleg. Þá kallarðu á orku til þín og með svoleiðis Yin/Yang í farteskinu geturðu meira.

Það er mikil spenna yfir miðjum maí, svo ekki taka afgerandi ákvarðanir þá. En ef þér finnst það sé svo mikil þörf fyrir að þú breytir einhverju stóru þetta tímabil skaltu setja þér ákveðinn tímapunkt. Til dæmis þann 15. maí tek ég ákvörðun eða hvaða dag sem þú hefur í huga, þannig breytirðu rétt. Það er nefnilega heilmikill hamagangur að þjóta til þín á næstunni og það hentar ekki alltaf lífsorkunni þinni.

Þú hefur svo sterkar andlegar tengingar í þessu ferðalagi sem þú ert að fara í og þá þarftu að vita að það virkar að kalla á þá sem geta hjálpað þér og sérstaklega á þá sem eru farnir í sumarlandið. Þegar ég var að gera ljóð og alls kyns limrur hér áður fyrr, þá kallaði ég á stórmerkileg skáld til að hjálpa mér, Davíð Stefánsson og Stein Steinarr. Þá varð andagift (mér finnst mun betra að segja andaGJÖF) mín miklu miklu betri. Ég var líka einu sinni á leiðinni yfir heiði í brjáluðu veðri á lánsbíl sem ég kunni ekkert á og kallaði á móður mína. Það stefndi í mikið óefni og ástandið versnaði til muna eftir að ég bað um hennar hjálp, en þá mundi ég eftir því að hún var mjög lélegur bílstjóri! Á sekúndubroti kallaði ég á bróður mömmu sem var besti bílstjórinn í sveitinni og þá fann ég styrkleikann og róna í sálu minni til þess að klára þessa bílferð. Gerðu þetta og þá verður miklu betri stjórn á því ferðalagi sem þú ert að fara í.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is
Loka