Sporðdrekinn: Þú býrð yfir miklu afli

Elsku Sporðdrekinn minn,

þú ert svo mikið náttúruafl. Og getur ef þú vilt verið eins og Fagradalsfjall, þar sem fólk fær engan leiða á að dásama þig og slást í för með þér. En svo eru margir í þessu merki sem ákveða að nota sitt sterka afl til þess að slökkva á sjálfum sér. Það er til dæmis kona sem er mjög skyld mér sem segir að hún verði alltaf þunglynd þegar sumarið er að koma og verður fúl og pirruð við flesta sem hún hittir.

Hún hrindir þar af leiðandi mörgum frá sér sem myndu dásama hana eins og Fagradalsfjall. Hún tekur alltaf þá ákvörðun að svona sé þetta og ekkert sem hún gerir geti breytt því. Þar af leiðandi fær hún þunglyndi á silfurfati, því það er það sem hún einblínir á. Og þótt þú sért konungur vetrarins, skaltu faðma að þér og búast við hinu besta. Þegar þú ert tilbúinn að taka á móti því að þú ert áhrifavaldur svo margra og þú skilur það skýrt í huga þínum hverju þú hefur hrifningu á.

Nautið og Sporðdrekinn eru með sérstaka tengingu og núna þegar Nautsmerkið er ríkjandi þá eflirðu eldinn sem býr í þér. Þú sérð hverju þú brennur fyrir og hvað þú vilt og þar af leiðandi muntu höggva á þá strengi sem binda þig niður við móður Jörð.

Þú ert eldkraftur í ástriðum og mikil keppnistýpa, hvort sem þú keppir við aðra eða sjálfan þig. En þegar þér finnst þú ekki vera að keppa að neinu, hvort sem það er merkilegt eða ekki, þá finnurðu lundarfar þitt þyngjast. Þú þarft að skoða það svo sérstaklega í þessum mánuði að nota ekki hugbreytandi efni. Skoðaðu vel bæði matinn sem þú borðar, hvað lætur þér líða vel, notaðu áfengi sem minnst eða helst alls ekki, því þá verður gleði þín óhindruð og eðlileg.

Lífið er yfirleitt bara venjur, breyttu einni venju og þá breytast aðrar. Gefðu fólki færi á að komast óhindrað að hjarta þínu, því einlægni þín, rödd og og þessi fallegu augu skapa svo bjarta áru í kringum þig.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is