Sporðdrekinn: Þú býrð yfir svo mikilli ástríðu

Elsku Sporðrekinn minn,

það sem er eru einkunnarorðin þín þennan sumartímann eru: „Að lifa er að þora“. Vendu þig á að taka vinsamlegum ábendingum vina þinna eða félaga og leyfðu þér ekki að láta það draga þig niður. Þú hefur það í eðli þínu að segja þitt álit og koma til dyranna eins og þú ert klæddur. Svo gefðu öðrum í kringum þig líka tækifæri til þess að fá sitt rými. Þegar þú hressir þig við, tekur í hnakkadrambið á þér og hendir þér út í hringiðuna muntu ná langt, hvað sem langt nú þýðir fyrir þér.

Það er svo mikilvægt þú rasir ekki um ráð fram í ástamálunum og leyfir þessari stórbrotnu ástríðu að stjórna þér of mikið. Því þá bíða þín líklega nokkur skipbrot. Höfnun og ást eru með sömu tengingar, svo hugsaðu þig vel um og gerðu þér grein fyrir því. Það er svo mikilvægt þú veljir viturlega og skoðir í excel hvað muni höfða til þessara sterku týpu sem ert þú.

Fjölskyldulíf er þér allt og þegar þér finnst þú hafir ekki það hlutverk sem þér hæfir, geturðu átt það til að grafa þig niður í holu. En þá verðurðu líka að skilja að það ert þú sjálfur sem ert að grafa holuna. Um leið og þú hreinsar þetta til verða hindranirnar fáar og Alheimurinn elskar þig.

Þú hefur svo ríkjandi, sterk orð og orðaforða, nýttu þér það til þess að reisa þig upp frekar en að berja þig niður. Þú ert svo sterkt tengdur hjartastöðinni þinni sem eflir allar tilfinningar. Og höfuðstöðunni þinni (Crown Chakra) sem gefur þér svo stórfenglegar hugmyndir. En það sem þú þarft að gera í stöðunni er að tengja ekki allar þessar tilfinningar við þessar merkilegu hugmyndir þínar, því þá geturðu ekki framkvæmt þær.

Þú munt segja nei við góðum hugmyndum sem breytt geta stöðu þinni á allan hátt, en samt að sjálfsögðu bara eitt skref í einu. Besta skrefið sem þú getur tekið er að hugsa sem minnst eða helst bara alls ekki neitt. Þú hefur svo fjölhæfan hæfileika til að aðlaga þig að breyttu umhverfi og þarft bara að kalla á kameljónið í þér, gera þitt besta í að gera aðra hamingjusama og þá finnurðu þína hamingju líka.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is
Loka