Vogin: Þú ert óþolandi heppin

Elsku Óþolandi Vogin mín,

þú ert svo óþolandi heppinn að hafa Venus sem áhrifastjörnu. Hún gefur þér svo góðan smekk og þú getur gengið í öll störf.  Það er mikilvægt þú sjáir að það eru að koma breytingar í áhugasvið þitt. Jafnvel í tómstundum eða listrænum verkefnum.

Þú ert að fara að skilja svo vel hvaða karakter býr í þér. Í þessum merkilega karakter býr persóna sem heldur að hún sé undiralda alls. Hún reynir eins faglega og fallega að stjórna umhverfi þínu og öðrum. Þegar þú þarft að gefast upp og líta á og klippa á strengi, þá verður vöxtur þinn óendanlega sterkur. Þú ert fyrirmynd en þarft ekki að hafa skoðun á öllu, þótt þú hafir rétt fyrir þér. Leyfðu fólkinu kringum þig að skína eins skært og það getur og haltu frekar áfram að hvetja heldur en að segja þína skoðun.  Notaðu hjarta þitt sem áttavita, þá gerast ævintýrin og hjartað tengist tilfinningaorkunni þinni eða Sólarplexus. Um leið og þú sérð þú velur Ljósið, þá sérðu ekki skuggana lengur og þú munt láta fugla sorgarinnar fljúga framhjá þér.

Það þarf að minnsta kosti tvo til að hefja styrjöld, svo leggðu niður öll vopn. Því þegar þú leggur niður öll vopn, þá blómstrar kærleikurinn. Þú ert að endurnýjast eins og blómstrandi blóm og þú velur að læra eitthvað nýtt. Faðmaðu að þér það sem veldur þér erfiðleikum og þá finnurðu lausnina.

Þú ert svo sterk og vitur og allir vilja bjóða þér heim. En þú þolir ekki þegar þú þarft að standa á rétti þínum, því það reitir þig til reiði. En reiði er klæðnaður sem fer þér alveg hræðilega illa. Þú ert svo varanleg og heil í hjartanu og góðvilji er einkenni þitt. Ef þú átt börn þá dýrka þau þig og dá. Og ef þú átt maka ert þú endalaus dásamlegur kærasti eða kærasta. En mundu hjartað mitt að leyfa þeim sem þú elskar að vera þau sjálf og farðu svo að ausa yfir sjálfa þig því dekri og hlýju sem þú vilt alltaf vera að gefa þínum.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is