Fiskurinn: Hrókur alls fagnaðar í júlí

Þú finnur að þú eflist og sérð þann hæfileika þinn að gefa ljós og styrk til þeirra sem á því þurfa að halda. Í þessu sterka umhverfi og til þess að þú getir vaxið og dafnað er svo mikilvægt að þú tjáir þig í gegnum listir, vini og gleði. Tækifærin koma fljótandi til þín þegar þú ert á léttum nótum lífsins og þú aðlagast betur með því að tjá þig í gegnum lífsgleði, þó að þig langi jafnvel til að öskra. Gulur er liturinn sem tengir þig inn í sumarið og hann gefur þér tákn um vináttu og sanna ást. Ef þú ert að leita að ástinni eða finnst hún vera komin í líf þitt skaltu nota lífsgleðina og húmorinn og eyða allri neikvæðni, þá gengur allt eins og í sögu.

Þú skoðar allar aðstæður út frá hagnýtu og tilfinningalegu sjónarhorni og hefur einstaka hæfileika til að leysa úr vandamálum annarra. Þú vinnur yfirleitt meira en þú þarft án þess að taka aukalega fyrir það og fyrir það elskum við öll þann karakter sem ert þú. Þú ert mikill matgæðingur, elskar að elda og þú skalt þróa þá list betur, það kemur eitthvað merkilegt út úr því.

Að sjá til allra átta og öll meðalmennska fer í taugarnar á þér. Þú gefur ekki fáfróðu eða smásálarlegu fólki tíma og núna er tíminn svo sannarlega verðmætur. Þú skautar fram úr þeim sem eru að keppa við þig, án þess að hika. Þú ert svo mikil knús- og kúrumanneskja, elskar að snerta og knúsa og núna geturðu svo sannarlega sleppt fram af þér beislinu í bangsafaðmlögum.

mbl.is