Meyjan: Elskaðu sjálfa þig

Elsku Meyjan mín, þú átt það til að finna að það streymi til þín máttur og að þú sért alls megnug. Þessi tilfinning getur hellst yfir þig á hádegi og svo finnst þér að þú getir ekki neitt þegar kvölda tekur. Núna sérðu allt í öðru ljósi og setur jafnvægi yfir þessa orku svo hún verði ekki svona sveiflukennd.

Þú elskar að ná valdi á ýmsum kúnstum og keppni. Og ef þú skoðar þegar þú varst barn, þá fannst þér allt þess háttar svo skemmtilegt. Farðu og náðu í barnið í þér, því þegar þú leikur þér færðu bestu hugmyndirnar og mestu orkuna. Þú ert andlega hugsandi og ef þér finnst að þú fáir ekki skýr skilaboð með þeim hætti, skaltu slengja þér í bað sem þú hefur sett baðsalt í og hefur haft svolítið fyrir, eða bara drífa þig í sund. Og þótt þér finnist þetta ekki vera merkilegt, þá eru það litlu hlutirnir sem byggja upp þá stóru.

Til þess að fanga ástina og halda sambandi, þá er svo mikilvægt að elska sjálfan sig. Byggðu þess vegna upp sterkt og öruggt samband við eigið sjálf, þá eflist ástin hvort sem hún er við hliðina á þér eða er að birtast þér. Alveg sama þótt þú lendir í öngstrætum vitleysunnar og gerir eitthvað af þér sem þú hefðir betur látið ógert, þá fyrirgefum við þér öll, því þú ert búin að byggja það upp að þú ert miklu meira elskuð en þig grunaði.

Það virðist eins og þú sért að bíða eftir einhvers konar atburði sem færir þér peninga og kemur þér þangað sem þig hefur dreymt um. Það er kannski þreytandi að nota þolinmæði að vopni, en nauðsynlegt, því það sem er að koma til þín kemur á síðustu stundu.

mbl.is