Steingeitin: Inni í þér býr villingur

Elsku Steingeitin mín, júlímánuður verður svo sannarlega gefandi og skemmtilegur. Því undarlegar tilviljanir og atvik eiga sér stað með reglubundnu millibili. Þú bæði vex og viðar að þér visku og andlegum skilningi. Þú ert eins og á þekkingarnámskeiði í skóla lífsins og átt eftir að njóta þess að vera til. Þú ert nýbúin að fá klapp á bakið eða vera sérstaklega ánægð með einhvers konar afrek, sem fær þig til að finna spennu fyrir lífinu, og já, bara finnast þessi tími vera spennandi.

Það er að opnast svo margt í hjarta þínu og þú gefur bæði þér og öðrum stóran séns til að valhoppa út þetta sumar. Þú finnur svo innilega að þú getur stólað á sjálfa þig, því vitund þín er að stækka með hverju skrefinu. Það er mikið af freistingum í kringum þig og þær eru tengdar ástinni og hún gæti komið í dulbúnu veseni og lýst ljósi sínu bæði á þá sem eru á lausu jafnt og þá sem eru í sambandi.

Ef þú ferð ekki varlega þá gæti þessi lífsins ástardrykkur sem þú vilt súpa á, verið eitraður. Peningamálin reddast alltaf, þú gætir verið að fá borgað fyrir eitthvað sem þú hefur lagt út, eða það sem þú bjóst ekki við að myndi koma til þín. Því þú ert með sama streymi og flæði og Gullfoss, fallegt, hrífandi og gerist snöggt. Það kemur viss spenningur í þig að fjárfesta, líta eftir nýju heimili, vinnustað eða skóla og ef þú setur huga þinn og kraft í það af fullu afli, þá muntu skora. En það þarf að þora til að skora!

Og þótt þú virðist virðuleg á yfirborðinu, þá býr í þér villingur sem lætur sig dreyma stóra drauma og það er leiðin til þess að þeir rætist. Þú átt eftir að upplifa ævintýri og gera eitthvað stórbrotið.

mbl.is