Krabbinn: Margt smátt verður stórt

Elsku Krabbinn minn, láttu alls ekki tilfinningarnar bera þig ofurliði í neinu á þessu sérstaka tímabili sem þú ert að ganga inn í. Þú mátt alveg vita að þú getur gert greinarmun á réttu og röngu, svo íhugaðu að gera ekkert annað en að feta þann veg þar sem hið réttara skal sannara reynast. Það getur oft verið erfitt fyrir þig, yndið mitt, að halda með réttlætinu og hinu rétta. Og á sama tíma líka að standa fyrir utan allt sem þarf að taka ákvarðanir um, en þú færð aukakraft til þess að klára málin.

Það er þér í blóð borið að hugsa um og annast aðra, þú ert alveg skilyrðislaus í þessari hjálpsemi sem lýsir upp hjarta þitt. Þú átt það örlítið til að taka yfir og stjórna til þess að létta líf annarra, en í þessu öllu skaltu skoða að rétt skal vera rétt. Það er blanda af bæði feimni og framtakssemi í hjarta þínu og eftir því sem þú eldist skilurðu feimnina meira eftir heima og framtakssemi verður frekar þitt einkenni.

Þú leyfir þeim of mikið sem halda þér niðri og eru alltaf að hræra í sömu súpunni, sem er orðin alveg bragðlaus. En þú þarft að sjá að sumt fólk er ekkert að gera í lífi sínu og á það til að hanga utan á þér eins og ketilbjöllur og hindra að þú færist til. Þetta er ekki þeim að kenna heldur sjálfum þér, því þú hefur ekki neinn kraft til að breyta til hins betra þeim sem ekkert vilja breytast.

Það er birta yfir heimili þínu og þú ert örugglega löngu byrjaður á því að lagfæra allt og setja í skorður, því það streyma til þín ótrúlegar hugmyndir. Hugmynd er í raun og veru eins og spádómur, því þú sérð fyrir þér í huganum eitthvað sem er sent til þín. Og hvort sem það er lítil eða stór hugmynd, þá muntu standa upp og gera eitthvað í málunum. Margir litlir hlutir verða að stórum, svo allt er að gerast eins og það á að vera. Ástinni tengist hlýja og fyrirgefning, þú lætur ekki þá hluti sem áður fóru í taugarnar á þér espa þig upp, því að styrkur fönixins er eins og hjálmur utan um þig.

mbl.is