Steingeitin: Tími til að hafa gaman

Elsku Steingeitin mín, þú þarft að afkasta svo miklu til þess að vera sátt og ánægð í eigin skinni. Þú ert forystusauður, svo hjörðin fylgir þér. Það er líka svo skemmtilegt hvað þú ert skýr í því sem þú vilt að gerist og talar bæði ákveðið og fallega.

Þú ert kletturinn í lífi fjölskyldu og vina þinna, og þegar erfiðleikarnir heimsækja þá sem eru þér nánir, þá er kletturinn mættur til þess að hjálpa. Þú reynir allt of mikið, hjartað mitt, að halda aftur af þér, en ekki hlaupa frá hjarta þínu, því sem þér finnst, þó það falli ekki öllum í geð. Þá er það þinn akkilesarhæll eða galli að þú getur átt það til að bæla þig niður. Þessi tími sem þú ert að fara inn í núna er til þess að hafa gaman. Þegar þér líður vel og þú hefur gaman, þá mætir ósjálfrátt til þín það sem þú hefur verið að óska eftir.

Þú ert að smíða hvernig þú vilt hafa veturinn, en hann mun raðast upp aðeins öðruvísi en þú bjóst við. En ævintýrin og nýjungarnar koma til þín eins og þú sért með sérsamning við DHL. Til að hressa sálina þína við, þá er þinn litur gulur, líka rauður og já, blár. Og þessir litir hjálpa þér til þess að móta skemmtilegra líf og það er það sem við að sjálfsögðu viljum.

Þeir sem eru á lausu í þessu ofursterka merki þurfa að hafa vott af kæruleysi með sér í liði og vera opnir fyrir því að gefa ástartilfinningum og tengingum tíma, og þolinmæði. Þú hefur ótrúlega mikla samskiptahæfileika í ástarsamböndum, og ert, þegar þú ert komin í samband, trygglynd og trú. Það er nefnilega verið að óska eftir þér í ástinni.

mbl.is