Vatnsberinn: Þinnar eigin gæfu smiður

Elsku Vatnsberinn minn, þú ert að fara inn í góða tíma þar sem þú nýtur þín alveg í botn. Þú ert að breyta einhverju skipulagi og skemmtir þér betur en þú bjóst við. Þeir sem eru í ástarhug eiga bara að gera eitthvað í málunum, ekki bíða eftir að eitthvað gerist, það er lausnin. Þú ert náttúrlega sérstakt listaverk og það er alls ekki hægt að segja þú fallir inn í neins konar form.

Þér finnst alltaf að þú þurfir að læra meira, gera meira og útvíkka hug þinn. Svo það er svo sannarlega hægt að segja að þú verðir alls ekkert stopp. Þú skapar þig óháð því hvort aðrir samþykki það sem þú gerir eða ekki og ferð út úr þægindahringnum þegar þér dettur það í hug. Það er aldrei leiðinlegt að eiga í ástarsambandi við Vatnsbera, því þið eruð svo kósí elskhugar að öllu leyti.

Það birtir yfir í kringum fólkið þitt og þú þarft að taka sterka afstöðu í sambandi við mál sem eru að angra þig. Og það besta í því er, að þú fordæmir engan og átt gott með að setja þig í spor annarra. Þú vilt svo sannarlega að öllum líði vel og vilt þar af leiðandi þóknast öðrum í því sem þeir vilja gera. Þetta getur rifið orkuna þína og hjúpinn sem þú hefur í sundur, svo núna er mikilvægt að minna sig á að þú ert þinnar eigin gæfu smiður. Og þeir sem eru í kringum þig hafa það líka í höndum sér að byggja sína eigin gæfu.

Það er að lyftast andi þinn, hressleiki og útgeislun með hverjum deginum. Þú færð þar af leiðandi tækifæri til þess að skora þá eða það á hólm sem hindrar þig. Öllum ákvörðunum þínum fylgir svo blessaður styrkur og það mikilvægasta í öllu þessu núna er að taka stjórnina í þínar eigin hendur og storma áfram.

mbl.is