Krabbinn: Gríptu nýjungar

Elsku Krabbinn minn, þú hefur þann hæfileika (eins og önnur krabbadýr) að geta verið inni í skelinni þinni þegar þú þarft. Þú ert búinn að læra að mestu að skýla þér fyrir veseni og vandamálum annarra. Og það gerir þig svo miklu sterkari til þess að takast á við þetta yndislega og litríka líf.

Þú ert búinn að vera að hugsa að það hafi ekki nógu margt eða mikið áunnist í sumar eins og þú vildir að það gerði. En núna eru að detta í hús kærkomnar fréttir sem gefa þér svo margt gott. Þú hefur líka fundið hjá þér nýjan hæfileika, eitthvað sem þú ert sérlega góður í og þú ættir að skoða það mál aðeins betur. Því að þessi tími er til þess að spyrna fótunum eins fast og þú getur. Og þú hefur það ekki einu sinni í þinni ímyndun, það er að þú sérð það fyrir þér í mynd sem er að koma til þín, hversu langt þú átt eftir að ná.

Það mun auka víðsýni þína og lífsneista að temja þér nýjungar í lífinu. Ekki segja við sjálfið: „Ég kann þetta ekki, ég get þetta ekki eða ég nenni þessu ekki.“ Því þá hverfa í bili þeir möguleikar sem eru að bjóðast þér.

Steinninn þinn heitir rúbín og hann táknar frelsun hjartans. Rauði liturinn er líka þinn litur þennan mánuðinn, hvort sem það er bók, föt eða bolli, því að tilfinningin sem þú meðal annars færð út úr því er lífsþorsti og vinátta.

Þú skalt gefa mikið af þér ef þú ætlar að heilla ástina og þó að þú sjáir það ekki strax, þá er það að virka sem þú ert að gera. Þú finnur fyrir meiri bjartsýni en þú hefur haft og þessi jákvæða sýn þín á lífið allt er undirstaða þeirrar vellíðunar og styrks sem þér er að auðnast.

mbl.is