Fiskarnir: Ástarorka í allar áttir

Elsku Fiskurinn minn, þínar tilfinningar eru búnar að vera eins og Fagradalsgosið. Yfirleitt ertu að skína svo ofboðslega skært, svo inn á milli finnurðu tímabil þar sem þér finnst vonleysið læðast að þér og þú færð hnút í magann. Til þess að ná þessu dásamlega jafnvægi sem þú vilt hafa, þarftu að skoða betur hið andlega.

Að láta ekki dót og drasl skipta þig öllu máli, heldur að finna að hamingjan og lífið býr innra með þér. Þú ert nýbúinn eða ert að fara í nýja vegferð sem eflir huga þinn og gefur þér lítinn sem engan tíma til að hafa áhyggjur af því sem skiptir engu máli. Þar sem þú ert í Fiskamerkinu þá veistu það að fiskar eru á stöðugri hreyfingu og þegar þú finnur mest til og borðar áhyggjur í morgunmat, er það vegna þess að þú hefur ekki nóg fyrir stafni.

Þú finnur að kyrrð og hamingjan í hjartanu þínu eflist með nýjum athöfnum. Vináttan verður skýrari og tærari ef þú tekur bara ákvörðun um að treysta meira en þú hefur gert. Það verða ferðalög í kringum þig sem skipta þig miklu máli og fá þig til að finna að þú slakar á og leyfir þér að njóta.

Ef þú ert á lausu eða í erfiðu sambandi, láttu þá ekki gamlar minningar eða erfiðleika fortíðar í ástamálum eitra fyrir þér daginn. Þú færð það sem þig vantar og það sem þú vilt. En passaðu þig bara á því að vera ekki að stjórna þeim sem þú elskar, heldur að treysta, því þá færðu gátuna leysta. Þú ert eins og gangandi kærleiksbjörn, sendir ástarorkuna í allar áttir því ástríða þín er svo djúp að fólk grípur andann á lofti.
Þú ættir að skoða hvort þú getir ekki séð betur hversu hæfileikaríkur þú ert. Og taka sénsinn til að þróa með þér einhvers konar list og þora að standa fyrir framan fólk og tala. Þetta tímabil gefur þér svo marga möguleika, svo taktu áhættu með sjálfan þig, segðu já við áskorunum og saltaðu áhyggjurnar. Ég dreg fyrir þig úr spilastokknum mínum og þar segir að ástin sé að óska eftir þér.

mbl.is