Vatnsberinn: Leyfðu þér að hlakka til

Elsku Vatnsberinn minn, þú býrð yfir þeim góða hæfileika að þora að taka góða áhættu í lífinu. Þú stendur einum of oft á bjargbrúninni og það eina sem getur stefnt þér fram af henni er ef þú lætur álit og skoðanir annarra fara inn í hjarta þitt. Þú nýtur nefnilega verndar yfirnáttúrulegra afla, og stundum hefur þér fundist að röð sérkennilegra tilviljana hafi hjálpað þér út úr ólíklegustu aðstæðum.

Það verður nefnilega allt sem þú snertir að gulli þegar þú forðar þér frá því að láta misviturt fólk búa í huga þínum. Þegar þú sérð að allar þær hliðar sem þú getur sýnt sjálfum þér eru góðar og þú sættist við huga þinn í öllu, þá halda þér engin bönd, því að yfirnáttúruleg öfl eru þér innan handar.

Þú hefur í gegnum tíðina rétt öðrum hjálparhönd án þess að þurfa eitthvað í staðinn. Og þú átt eftir að sjá að óvenjulegasta fólk mun fara úr yfirhöfninni og leggja hana yfir pollinn fyrir framan þig svo þú getir verið þurr í fæturna.

Leyfðu þér meira að hlakka til þess sem er að koma, því að það hefur verið visst spennufall í kringum þig. Þetta er eins þegar maður hlakkar til að taka við nýja heimilinu sínu, en þegar maður flytur þangað verður visst spennufall. Ekki eins gaman og maður hélt, svona eins og að hlakka til jólanna. En aðfangadagskvöld er oft ekki eins og þú bjóst við. Svo núna eru stjörnurnar í þínu korti að færa þér vegvísi að nýju tilefni til þess að mega hlakka til.
Vissir aðilar öfunda þig og ef öfund yrði virkjuð á Íslandi þyrftum við ekki rafmagn. Það öfundar enginn allslausan mann, þú hefur mikið svo farðu vel með það.

Það blasir við þér nýtt heimili eða ný verkefni, það er eins bjart yfir þeim og friðarljósi Vatnsberans Yoko Ono sem lýsir í Viðey.

mbl.is