Fiskarnir: Farðu varlega í breytingar

Elsku Fiskurinn minn, öll þau áföll, ergelsi og leiðindi sem þú hefur verið að ganga í gegnum hefur þú kallað á eða þau verið send þér til þess þú sjáir inn í nýja vídd. Til þess eins að þú vitir hvað skiptir máli og hvað er einskyns nýtt.

Alveg fram til 17. nóvember færð þú í hendurnar góða orku og gott afl til þess að leysa lífið með gleði og frið. Því þegar þú blandar saman frið og gleði, þá uppskerðu og færð góða líðan.

Það getur verið að þú missir frá þér eitthvað af peningum á þessu tímabili, en það er ekkert sem ætti að angra huga þinn. Því þú gerir samninga eða talar við rétta aðila til þess að laga þessar gloppur. Það verður mikill kraftur í kringum þig, en hann getur líka gert það að þú verðir ótrúlega þreyttur. Þú þarft að skilja betur líkama þinn, því hann er að senda þér hárrétt boð um hvað er best fyrir þig.

Það er gott fólk og gott karma að sveima yfir fyrstu vikurnar í nóvember. En farðu varlega í ákvarðanir eða breytingar þann 18., 19. og 20. nóvember, því það fer ekki eins og þú áætlaðir. Svo lifðu bara í eins miklum friði og ró og þú getur, sérstaklega þessa daga. Leitaðu ráða og fáðu lánaða dómgreind frá þeim sem vita betur en þú. Í því færðu svarið við þeim spurningum sem þú virðist ekki geta fundið nógu vel svör við sjálfur.

Þetta er ekki rólegur tími, en þetta er samt sá tími þar sem þú byggir undirstöður að einhverju svo miklu meira og betra fyrir hug þinn, hjarta og sál. Ég dreg fyrir þig spil og á því stendur: „Vertu feginn því sem þú hefur, þá færðu þær gjafir sem þú vilt“.

mbl.is