SteingeitiN: Heppni í fjármálum

Elsku Steingeitin mín, í þér býr hagsýni og hörkudugnaður. Það er svo sannarlega hægt að segja þú sért salt jarðar og stálheiðarleg. Þú lýkur alltaf þeirri vinnu sem þú lofar að vinna og í þér er ekki til að gefast upp eða að gefa eftir. Þú gengur sterk upp fjallið af þolinmæði og nákvæmni, þangað til að þú nærð þínum árangri. Fjölskyldan og trygglyndi til þeirra sem hjarta þínu eru næst er það sem þú virkilega stendur fyrir. Þitt ofurþrjóska eðli býður ekki upp á að þú játir að þú hafir rangt fyrir þér, þótt þú vitir það alveg upp á hár þú ættir að gera það.

Það er erfitt að stjórna þér, svo ef þú hefur verið svo heppin að ná þér í maka sem ætlar sér svo sannarlega að breyta þér, þá hefurðu þá snilld að leyfa þeim aðila að halda að hann geti það. Því þú ert svo lipur í samningum og veist hvenær þú átt að gefa eftir og hvenær ekki.
Það er ekki hægt að breyta Steingeitinni, því þú springur á endanum. Svo þetta eru líka skilaboð til þeirra sem eru svo heppnir „að ná í þig“, því þeir þurfa líka að læra að gefa eftir.

Í kringum þig er heppni tengd fjármálum, en þá virðist þú bara eyða um efni fram, því það að versla það ódýrasta hentar ekki eðli þínu. Svo það skiptir í raun engu máli hversu miklir peningar eru. Og það er heldur ekki það besta fyrir þig að fá hlutina of auðveldlega til þín, því þá missirðu þetta eðlislæga keppnisskap.

Það vilja allir lána þér eða hjálpa, vegna þess að þú ert elskuð. Og eitt atriði skiptir svo miklu máli ef við skoðum næstu mánuði, en það er að það hentar þér ekki að búa ein of lengi. Því að í því finnurðu ekki þá hamingju sem þér er ætluð. Alveg sama á hvaða aldri þú ert, skaltu blessa og að vera opin fyrir því að ástin er þarna. Hún er ekki tengd spennu eða rugli, heldur ró og krafti. Þú skalt lifa af fullum krafti eins og enginn sé morgundagurinn.

mbl.is