Tvíburarnir: Þú ert ósigrandi

Elsku Tvíburinn minn,

þú átt eftir að anda að þér sólinni, snjónum og jólaljósunum. Þú finnur bjöllurnar í sálu þinni hringja inn hamingju og þú sérð þessa hamingju á óvenjulegustu stöðum. Þó þú hafir gengið í gegnum þreytuköst og að vilja sofa aðeins lengur, skaltu ekki streitast á móti því sem líkaminn sendir þér. Leyfðu þér það bara. Líkaminn veit nefnilega hvað þú þarft, svo faðmaðu sjálfan þig og klappaðu þér á bakið.

Í lífinu getur þú skilið við allt, vinnuna, kærastann, landið þitt og vinina, en alla ævi munt þú vakna og sofna hjá sjálfum þér. Þú ert að sjá og finna að þú ert besta manneskjan sem þú hefur kynnst. Það er umbreyting á svo mörgu hjá þér af því þú ert opinn fyrir því að fólk komi til þín. Þú ert opinn fyrir því að það hjálpi þér upp, ef þú einhversstaðar hafur dottið í drullupott. En það skiptir samt engu máli þó þú dettir, því það eina sem skiptir máli er að standa upp aftur og halda áfram. Orðin að gefast upp eiga ekki að vera í þínum orðaforða. Og þegar afstaða þín verður svona sterk ertu ósigrandi og óhræddur við allt og alla.

Peningarnir koma til þín og þeir fara frá þér, enda eru þeir bara til þess að hafa gaman. Svo ekki hugsa of mikið um það hvort þú eigir mikið eða lítið af þeim. Því að streymið verður á réttum tíma. Þú átt alltaf að gera ráð fyrir hinu besta, alveg sama hvað gerist.

Þann 19. desember er fullt tungl í þínu merki og svo mikilvægt fyrir þig að tengja þig við alheimsorkuna og tunglið á þessum tíma, því það hefur mikil áhrif. Þetta er þar af leiðandi þinn mánuður og þú ferð framhjá hindrunum sem eru að sjálfsögðu á leið manns, vegna þess að þú lest svo vel út úr því sem lífið er að færa þér.

Afstöður himintunglanna eru ekki sérlega auðveldar fram að 15. desember fyrir öll merkin, en það er ekki það sem við eigum að hafa í huga. Heldur að vita það að á öllum vanda finnst lausn og Alheimurinn er að breytast og mennirnir með. Svo þú skalt njóta og nýta þér þær aðstæður sem þú ferð inn í. 

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is