Hrúturinn: Þú átt eftir að vinna hetjudáðir

Elsku Hrúturinn minn,

það er svo merkilegt að skoða að lífið fer alltaf í hringi og núna ert þú að byrja svo spennandi kafla. Þótt þér hafi fundist þú hafa verið á krossgötum, þá þýðir það samt að vegir liggja til allra átta. Þú ert að sleppa tökunum á þeim köngulóarvef sem þér hefur fundist umlykja þig, en þú rífur þig lausan og það verður miklu auðveldara en þú hefðir nokkurn tíman búist við. Þetta á sérstaklega við um janúar og í byrjun febrúar. Rólegheit í tilfinningum, anda og huga sveima yfir í febrúar og þar verður þú svo fallega tengdur yfir í orku Vatnsberaaldarinnar sem hefur áhrif á alla veröldina að sjálfsögðu. Þú verður smitandi lífsorka fyrir aðra, því það er mikil auðmýkt og friður í sálu þinni. Í apríl verður talan einn sem er táknið þitt mjög áberandi og þá geturðu fagnað uppskerunni.

Sumarið verður einfalt og umlykur þig, svo friður verður þar sem þú vilt hafa og ófriður ef þú efnir til hams. Þú hefur mikla stjórn á aðstæðum, þetta verður einhvern vegin öðruvísi en fyrri sumartími og það mun láta þig fá meira en þú býst við. Ef við skoðum ástamálin á árinu svona almennt séð fyrir Hrútsmerkið, þá verður það haustið sem bætir hjartans þrár. Þú finnur hversu sterkbyggður þú ert og hefur þann stálvilja sem þarf til þess að bæta lífið. Sérstaklega á þetta við um konur sem eru svo heppnar að eiga heima í þessu merki.

Þú átt eftir að vinna hetjudáðir og ná þeirri frægð eða frama sem þú óskar þér og þú hefur trú á. Þú ert sannkallað eldmerki og það sést líka á því hversu miklum eldmóði og krafti þú býrð yfir. Þetta segulmagnaða og fallega orkublik sem þú hefur, sendir þér hvert tækifærið af öðru á silfurbakka. En þú verður að vera snöggur að ákveða hvað þú vilt grípa, því þetta verður eins og vindurinn á Íslandi, sem kemur og fer. Og sem eldmerki þarftu líka að varast í þínum fallega drifkrafti að tendra elda sem erfitt gæti reynst að slökkva.

Þú ert beintengdur við skilaboð frá Alheiminum, svo hlustaðu vel á það sem kemur til þín þegar þú ert að vakna eða þegar þú sofnar, því á slíkum tíma eru skilaboðin hreinust. Bestu uppfinningar og hugmyndir sem hafa komið í gegnum aldirnar til snillinga hafa verið allra tærastar á þeirri tíðni. Þú átt eftir að hafa svo mikla orku og vera opinn fyrir ást og góð tjáskipti eru lykillinn að lífinu árið 2022.

Knús og kossar, Sigga Kling

mbl.is