Fiskarnir: Þú ert með svo mikinn X-factor

Elsku Fiskurinn minn,

það er í eðli þínu að skína skært og skemmta öðrum. Þú reynir stöðugt að vinna nýja sigra og færð alveg fullkominn móral þegar þér finnst þú hafa verið leiðinlegur við aðra. Þessi skynjun þín á því hvað aðrir eru að hugsa er yfirleitt röng, því að þú ert oft svo fljótur að ákveða að þessi manneskja sé svona eða hinsegin eða hugsi þetta eða hitt.

Þinn X-Faktor verður sterkastur í því að þú munt tala svo fallega, frá hjartanu og vera einlægur. Afleiðingin er sú að þú hittir beint í hjartastað. Þitt eðli er að hafa bara einn maka og það er alveg öruggt að það er trygglynd og glæsileg manneskja. Það er hætt við því að þú skuldbindir þig gagnvart annarri persónu, fjárhagslega eða tengt samvinnu sem þú kemst ekki auðveldlega út úr. Þegar þú finnur öryggisleysi í þeim tengingum, þá verðurðu of krefjandi og getur því ógnað því öryggi sem þú vilt og þarft að hafa. Gerðu það sem þér finnst gaman, bæði í viðskiptum, verkefnum og í ástinni, þá sérðu hvað lífið ert skemmtilegt.

Þér gæti fundist þú vera of áhrifagjarn í þessum mánuði og það tengist fólki sem reynir að ná tangarhaldi á þér og þetta fólk er mögulega tengt fortíðinni. Gefðu þeim ekkert færi á að breyta því sem þú ert að gera, því þá siglirðu ekki eins hratt áfram og þér er ætlað. Þú getur hjálpað til, punktur og ef þér leiðist í vinnunni, þá er hún bara of venjuleg fyrir þig. Breyttu til, því nú færðu möguleikana, bættu við, því nú færðu tækifærin. Útkoman er árangursríkt og happsælt samstarf og þú lítur á lífið bjartsýnum augum, leyfir þér að elska það sem þú ert að gera eða þá manneskju sem þú vilt vera.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is