Ljónið: Það dregur til tíðinda um miðjan febrúar

Elsku Ljónið mitt,

þú ert eitthvað svo mikið að stundum máttu aðeins minnka og leyfa hinum ellefu merkjunum að vera með líka. Að sjálfsögðu er ekki auðvelt að vera Ljón en það fylgir svo oft að þið viljið annaðhvort allt eða ekki neitt. Þú ert svo aflmikill að ef við skoðum það eins og við séum með engil og púka á sitthvorri öxlinni þá áttu það til að vegna þinna sterku skoðana að gefa púkanum meira að borða en hinum.

Þessi mánuður sem er að birtast þér gefur þér góðan viðsnúning ef þú vilt það. Þann fyrsta febrúar er nýtt tungl og Kínverjar byrja nýtt ár sem er ár tígrisdýrsins og ég hef þá skynjun að þetta sé árið þitt, en þú þarft að STAÐFESTA það. Á árum áður í Ameríkunni voru stór svæði lands veitt þeim sem gátu slegið eignarhaldi sínu á það, með því að vera duglegir og fyrstir á svæðið. Til þess að staðfesta þetta settu þeir fána sinn á það svæði. Þessi tími gefur þér þessa gjöf; að þú getir sett þinn fána niður.

Upp úr miðjum febrúar verða mikil tíðindi sem þú getur snúið þér í hag eða eru þér í hag. Þér finnst eins og lífið sé sýnt hratt, en það er nægur tími til þess að framkvæma það sem þú ætlar þér. Hlustaðu á engilinn á öxlinni á þér, hann er að segja þínum frumum hvernig þú ferð að því að ná góðum hlutum fram. Ekki berja þig niður, því að niðri viltu alls ekki vera. Alls ekki deyfa þig á neinn máta, hvorki með of miklum eða óreglulegum svefni eða hugbreytandi efnum, mat sem fer illa í þig eða öðru sem veikir taugakerfi þitt. Á þessu ári gengur þú að höllinni þinni, snýrð þér við og veist að þú ert konungurinn. Ég kasta fyrir þig rún sem táknar opnun og kraft og eiginleika sálar  þinnar til að búa til góðan veruleika. Hún táknar líka að ljósið muni umlykja þig og gefa þér styrk, orku kraft og ástríðu í allri sinni dýrð.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is