Hrúturinn: Ástarorkan er í öllum hornum

Elsku Hrúturinn minn,

það er búið að vera svo mikið að gerast í kringum þig að það er ekki skrýtið þú sért svolítið ringlaður. Það er fyrst núna í byrjun þessa mánaðar sem þú sérð að þú getir farið að slaka aðeins á huganum og átt eftir að ávinna þér mikinn líkamlegan kraft. Það er svo skrýtið að þegar þú slakar aðeins á þá byrja hlutirnir að gerast áreynslulaust. Þú sérð að helmingurinn sem þú varst að hafa áhyggjur af leysist svo þú hefðir bara geta sparað þér töluvert af þeim áhyggjum.

Ástarorkan er í öllum hornum og á þessum tíma er svo mikilvægt fyrir þig að sinna þeim vel þú elskar. Ef þú finnur fyrir því að þú sért pirraður, láttu það þá bitna á einhverjum öðrum en þeim. Því það er svo algengt að maður ergir sig mest gagnvart þeim sem síst eiga það skilið.

Það getur verið að þú þurfir að fara allskyns krókaleiðir til þess að láta peningamálin þín ganga upp, en það er bara örlítil krossgáta og það gengur upp hjá þér á hárréttum tíma.

Það eru margir sem stóla á þig og nýta sér góðmennsku þína. Sorteraðu fólkið í kringum þig og skoðaðu vandlega fyrir hvern þú vilt gera hlutina eða gefa aðstoð þína, því í þessari blessuðu veröld eru ekki allir eins góðir og þeir líta út fyrir að vera.

Lífið virðist fyrst og síðast fyrir manni sem hörkupúl, of mikið að gera og allt of lítill tími. En það er alltaf best fyrir þig að hafa nóg fyrir stafni, því þá verður allt miklu léttara. Þú átt samt ekki að gefa þig að tilgangslausu striti, heldur að setja jafn mikið í félagslífið og framann. Þú ert í eðli þínu sigurvegari, svo veðjaðu á sjálfan þig, þá gengur allt upp eins og í sögu.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is