Meyjan: Það verður allt auðveldara

Elsku Meyjan mín,

þín merkilega sál er bara að stækka. Þú ert að týna til þín svo margt sem þú getur nýtt þér til þess að skapa lífið í skemmtilegri litum. Þú finnur fyrir svo fallegri auðmýkt og friðsemd gagnvart orkunni sem er í kringum þig og fyrirgefur þeim sem þú þarft að fyrirgefa fyrir sjálfa þig. Það verður allt svo miklu auðveldara og einfaldara. Þú hættir að spenna þig upp og stressa þig af öllu því sem í raun skiptir engu máli, það er eins og Pollýanna hafi flutt heim til þín.

Gjafmildi einkennir þig og þú átt eftir að gefa bæði hluti og af sjálfri þér og við þetta líður þér svo dásamlega vel. Örlögin verða þér líka í hag og þó það sé þannig þú eyðir um efni fram gerir það ekkert til. Því þú hefur heppnina með þér og allt sem þú gefur frá þér kemur margfalt tilbaka. Ef þú hlustar betur á þína innri rödd, þá vísar hún þér réttu leiðina að takmarkinu.

Þú hefur fundið það á þér að þú eigir að ýta frá þér hlutunum því þú hefur eitthvað svo merkilegt fram að færa. Þetta eru tímar þar sem næmni þín eykst til muna, þú finnur til dæmis það sem þú hefur týnt og átt auðveldara með að finna það á þér hvern þú átt eftir að hitta. Þú getur kallað fram tengingar við þá persónur sem þú þarft að ná í. Margt af þessu hljómar eins og furðufrétt í eyru þín, en vittu til þetta er allt að opnast fyrir þér. Þetta gefur þér líka aukna heppni í spilum, fjármálum og að vera skrefi á undan öðrum. Og þó þú dettir einu sinni eða tvisvar verðurðu svo fljót að standa upp að þú tekur vart eftir því.

Það er eins og það sé með þér sérstakur Aladdín eða engill sem heldur himnunum uppi fyrir þig, svo mikill verður þinn andlegi máttur. Það verður frjósemi í svo mörgu, bæði í huga og í hamingjunni og margar Meyjur verða ófrískar eða það verður barnalán í kringum þær.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is